Hrossum bjargað úr sjálfheldu
Björgunarsveitin Húnar var ræst út kl 17:00 á laugardag að beiðni lögreglu vegna hrossa sem voru innikróuð á hólma í Víðidalsá rétt sunnan við Faxalæk þar sem hann rennur í Víðidalsá.
Vel gekk að ná hrossunum úr hólmanum í samvinnu við bændur í Bjarghúsum og Böðvarshólum sem komu með öflugar dráttavélar til að ryðja leið út í hólmann gegnum klakahrönglið í ánni, en menn töldu 24 hross sem komu úr hólmanum eftir að búið var að opna leið fyrir þau á land. En í fyrstu var óttast um að einhver af hrossum hefðu lentu undir jakahröngli er leysingarnar voru hafnar í ánni. 10 félagar í björgunarsveitinni Húnum tóku þátt í þessu útkalli og voru síðustu menn komnir aftur í hús á Hvammstanga um kl 21:00 um kvöldið, segir á heimasíðu Húna.