Húnabyggð og Skagafjörður höfnuðu styttingu þjóðvegar 1

Mynd: Samgöngufélagið 2018.
Mynd: Samgöngufélagið 2018.

Samgöngufélagið sendi bréf í byrjun febrúar á bæði Húnabyggð og Skagafjörð þar sem óskað var eftir afstöðu sveitarfélaganna um styttingu hringvegarins um svokallaða Húnavallaleið í Austur-Húnavatnssýslu og Vindheimaleið í Skagafirði. Sérstaklega er kallað eftir afstöðu til þess að framkvæmdin verði fjármögnuð með veggjöldum þannig að hún taki ekki til sín fjármuni til annarra brýnna vegaframkvæmda. Bréfið var tekið til umræðu á fundi byggðarráðs Húnabyggðar þann 22. febrúar og hjá byggðaráði Skagafjarðar þann 21. febrúar og höfnuðu bæði sveitarfélögin hugmyndinni um styttingu þjóðvegar 1.

Í fundargerðinni hjá Húnabyggð segir; ,,Hugmyndir um svokallaða Húnavallaleið eru settar fram af einkaaðilum sem enga hagsmuni hafa á því svæði sem um ræðir og hafa ekkert samráð haft við sveitarfélagið um útfærslu eða skilgreiningu á forsendum verkefnisins. Fullyrðingar um aukið öryggi eru rangar og byggja ekki á haldbærum gögnum. Byggðarráð bendir á að vegir eru í boði á þessum kafla en þarfnast lagfæringar eins og fjölda vega í héraðinu. Byggðarráð hafnar hugmyndum um styttingu þjóðvegar 1 um svonefnda Húnavallaleið og samþykkir samhljóða að fela sveitarstjóra að svara erindinu í samræmi við umræður á fundinum."

Í fundargerð hjá Skagafirði segir; ,,Lagt fram bréf frá Samgöngufélaginu, dags. 5.5.2024, stílað á Húnabyggð og sveitarfélagið Skagafjörð, þar sem óskað er eftir afstöðu sveitarfélaganna við hugmyndum Samgöngufélagsins um styttingu þjóðvegar 1 um svonefnda Húnavallaleið í Austur-Húnavatnssýslu og Vindheimaleið í Skagafirði. Sérstaklega er kallað eftir afstöðu til þess að gerð veganna verði fjármögnuð með veggjöldum þannig að hún taki ekki til sín fjármuni til annarra brýnna vegframkvæmda. Byggðarráð hafnar hugmyndum um styttingu þjóðvegar 1 framhjá Varmahlíð og samþykkir samhljóða að fela sveitarstjóra að svara erindinu í samræmi við umræður á fundinum."

Ef sveitarfélögin hefðu samþykkt hugmyndina myndi svokölluð Vindheimaleið gera ráð fyrir að ekið sé til suðurs yrði sveigt af þjóðvegi eitt í Blönduhlíð, ekið sunnan við Varmahlíð og upp á Vatnsskarð við Arnarstapa. Við það styttist leiðin milli Akureyrar og Reykjavíkur um allt að sex kílómetra. Ef Húnavallaleið
yrði samþykkt lægi þjóðvegur eitt sunnan við Blönduós. Sveigt yrði í vestur úr Langadal, ekið á milli Laxárvatns og Svínavatns, framhjá Húnavöllum og komið á hringveginn við bæinn Öxl í mynni Vatnsdals. Það myndi stytta leiðina milli Akureyrar og Reykjavíkur um allt að 14 kílómetra.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir