Kósý haustveður í kortum helgarinnar
Veðurstofan gerir ráð fyrir skaplegu veðri um helgina, stilltu og nokkuð hlýju en svo kólnar heldur í næstu viku. Þennan föstudagsmorguninn eru allir vegir greiðfærir á Norðurlandi vestra nema hvað að hálkublettir eru á Öxnadalsheiði þó líklegt sé að þeir hverfi um leið og hitinn hækkar.
Á Króknum hafa einhverjir ökumenn þurft að grípa í rúðusköfurnar síðustu morgna áður en lagt hefur verið í hann. Víðast hvar á Norðurlandi vestra er reiknað með hægri sunnanátt í dag og hitinn gæti jafnvel skriðið yfir tíu gráðurnar.
Spáð er stilltu veðri um helgina en hitatölurnar fara hægt niður á víð. Reiknað er með sólarlausu á morgun laugardag og skúrum seinni partinn en á sunnudag ætti að vera bæði bjart og stillt og kannski ekki vitlaust að plana nettan sunnudagsrúnt.