Leigja út borðspil og púsl

Mynd tekin á Héraðsbókasafninu.
Mynd tekin á Héraðsbókasafninu.

Á Héraðsbókasafni Skagfirðinga er nú hægt að leiga út bæði púsl og alls konar borðspil sér til dægrastyttingar og því um að gera að nýta þessa þjónustu. Það eina sem þarf að gera er að kaupa bókasafnskort og kostar árskortið aðeins 2800 kr. en eldri borgarar, öryrkjar, börn og unglingar upp að 18 ára aldri fá frítt. Margir einstaklingar og fjölskyldur byrjuðu að púsla og spila þegar heimsfaraldurinn herjaði á landann, sem er eitt af því jákvæða sem kom út úr þessari ósköp, en að spila á spil/borðspil eða púsla er bæði góð heilaleikfimi og frábær leið til þess að eiga gæðastund með fjölskyldunni, já eða vinum. 

Feykir hafði samband við Kristínu S. Einarsdóttur forstöðumann Hérðaðsbókasafnsins og spurði út í hver kveikjan hafi verið fyrir því að bjóða upp á þessa nýjung. „Þessi hugmynd er búin að vera lengi í þróun hér, púslin hafa verið til útláns í nokkurn tíma. Til dæmis er nokkuð um að hjón sem komin eru á eftirlaun komi saman og velji sér púsl, sem okkur finnst skemmtilegt. Spilin fóru í útleigu í febrúar á þessu ári og fer það vel af stað. Ég vann sjálf á bókasafni fyrir rúmum tíu árum síðan á Hólmavík og þar voru lánuð út spil sem safninu höfðu verið gefin. Okkur á safninu hér fannst þetta spennandi hugmynd og eftir að við skoðuðum bókasafnið á Akureyri í haust ákváðum við að drífa í þessu. Við fengum slatta af spilum gefins og einnig pantaði ég hátt í 30 spil frá Spilavinum, þeirri frábæru verslun. Við fengum svo Hilmar Kára Hallbjörnsson og Guðberg Haraldsson í heimsókn til okkar í febrúar og höfðum tvær spilakynningar sem tókust afar vel, fengum um 50 gesti."

Hvernig er leigutíminn á bæði spilunum og púslunum? ,,Spilin eru lánuð út í 14 daga en við höfum þó verið frjálslegri með púslin því þau geta tekið býsna langan tíma þar sem um er að ræða allt frá 500 upp í 3000 bita púsl. Það bætist alltaf við úrvalið í spila- og púsldeildinni og við tökum gjarnan við ábendingum um spil eða púsl sem fólk langar að prófa. Eins tökum við á móti spilum og púslum sem fólk vill losna við. Þessi nýjung harmónerar vel inn í alla umræðu um nýtni og umhverfisvitund, það er mjög sniðugt að þurfa ekki að eiga heima hjá sér mikið af hlutum sem taka pláss og eru ekki notaðir þeim mun oftar," segir Kristín að lokum. 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir