Leigusamningur framlengdur vegna Fæðingarorlofssjóðs
Vinnumálastofnun og Kaupfélag Vestur-Húnvetninga skrifuðu undir áframhaldandi leigusamning vegna húsnæðis Fæðingarorlofssjóðs á Hvammstanga sl. föstudag, en sjóðurinn hefur verið staðsettur á Hvammstanga frá árinu 2007. Leigusamningurinn var framlengdur í níu ár og gildir því til ársloka 2023. Norðanátt.is greinir frá þessu.
Við tilefnið fór Leó Örn Þorleifsson, forstöðumaður Fæðingarorlofssjóðs, yfir starfsemi Fæðingarorlofssjóðs og greindi frá því að í dag starfa tólf starfsmenn hjá sjóðnum. Hjá sjóðnum starfa þrír fulltrúar á síma, einn skjalavörður, sex sérfræðingar, fjármálastjóri og forstöðumaður sjóðsins. Frá og með 1. ágúst nk. mun Fæðingarorlofssjóður taka í notkun rest hæðarinnar að Strandgötu 1 á Hvammstanga og verður sá hluti nýttur sem gagnageymsla.
Þeir Gissur Pétursson, forstjóri Vinnumálastofnunar, og Vilmar Pétursson, mannauðsstjóri Vinnumálastofnunar, mættu fyrir hönd Vinnumálastofnunnar. Gissur sagði að stefnt yrði að því að halda starfsemi Fæðingarorlofssjóðs í óbreyttri mynd á Hvammstanga. Jafnframt sagði hann flutning sjóðsins til Hvammstanga hafa tekist einkar vel til og einna best af flutningum opinberra starfa út á land. Hann þakkaði fyrir gott starfsfólk Fæðingarorlofssjóðs og gott samstarf, sem og gott samstarf við stjórn Kaupfélags Vestur-Húnvetninga.
Gunnar Þórarinsson, formaður stjórnar Kaupfélags Vestur-Húnvetninga fjallaði um mikilvægi starfa Fæðingarorlofssjóðs fyrir svæðið og kaupfélagið og þakkaði fyrir gott samstarf.
Guðný Hrund Karlsdóttir sveitarstjóri Húnaþings vestra og Unnur Valborg Hilmarsdóttir oddviti afhentu Gissuri Péturssyni innrammaða mynd af Hvammstanga frá sveitarfélaginu og minntu á að sveitarfélagið getur lengi tekið við fleiri opinberum störfum.