Menntabúðir fyrir björgunarsveitarfólk

Aðsend mynd sem tekin var úr Menntabúðunum.
Aðsend mynd sem tekin var úr Menntabúðunum.

Laugardaginn 24. febrúar síðastliðinn voru haldnar Menntabúðir fyrir björgunarsveitarfólk á Sauðárkróki. Á viðburðinn mættu sextíu manns frá alls fjórtán björgunarsveitum. Er þetta í þriðja sinn sem Menntabúðirnar eru haldnar en þetta hefur verið árlegt í febrúar síðan 2022.

Menntabúðir eru vettvangur fyrir félaga til að ræða og fræðast um þau málefni sem þeim er annt um í starfi sínu; félagar fræða félaga. Hverju sinni eru í gangi þrjár til fjórar málstofur sem félagar geta valið á milli og geta því allir fundið eitthvað við sitt hæfi. Aðalmarkmið dagsins er að hittast, spá og spökulera.

Upphaflega hugmyndin að þessum viðburði kom frá Hafdísi Einarsdóttur, félaga í Skagfirðingasveit og hefur hún komið að skipulagningunni frá upphafi. Fyrstu tvö árin var Þorbjörg Jóna, félagi í Flugbjörgunarsveitinni í Varmahlíð, með í skipulagi og framkvæmd viðburðarins og í ár kom Elva Dögg félagi í Súlum á Akureyri í stað Þorbjargar. 

Fyrirlesarar og umræðustjórnendur árið 2024 komu víða að. Var það samblanda af virkum félögum og eldri ,,minna virkum” félögum, félögum að norðan og sunnan og svo framvegis. „Gestir viðburðarins voru einnig víða að, allt frá Egilsstöðum í austri og að Selfossi í suðri. Viðfangsefnin voru fjölbreytt og var meðal annars fjallað um hunda í leit og björgun, spjallað um báta, sýndur dróni og notagildi þeirra í starfinu kynnt, fjallað um samfélags- og fjölmiðla, sagt frá þjálfun og störfum í björgunar- og neyðaraðgerðum erlendis,“ segir Hafdís. Fræðsla um köfun og hún prófuð, sagt frá tækjamóti, fjallað og spjallað um ýmis forrit sem nýtast í starfinu, sagt frá félagastuðningi hjá Súlum, fjallað um krefjandi útkall sem var á haustmánuðum á svæði 11, spjallað um möguleika á undanfarahópi á landsbyggðinni og frætt félaga um fjarskiptamál,“ segir Hafdís.

Nokkur erindanna voru flutt tvisvar til að þátttakendur myndu ná sem flestum efnisatriðum og kom sú útfærsla vel út.

„Það er ljóst að enginn gerir neitt svangur og að svona viðburður þarf þak yfir höfuðið. Menntabúðirnar voru að þessu sinni haldnar í Fjölbrautaskólaskóla Norðurlands vestra en húsnæðið fékkst til afnota endurgjaldslaust. Þá gaf Snorri í Sauðárkróksbakarí veglegar veitingar með kaffinu. Við erum þeim gríðarlega þakklát fyrir þeirra framlag,“ segir Hafdís. „Hádegismaturinn var keyptur af Grettistaki sem bauð upp á afbragðsgott kjúklingapasta fyrir sanngjarnt verð og dagurinn endaði svo á veitingastaðnum Sauðá þar sem yfir fjörutíu þátttakendur Menntabúða fóru á veglegt pizza- og kjúklingavængja hlaðborð með frábærri þjónustu. Allir fyrirlesarar og umræðustjórnendur fengu smá þakkargjöf sem Eyrin gaf.“

„Að Menntabúðum loknum sendu skipuleggjendur út könnun til þátttakenda þar sem óskað var eftir að félagar segðu frá sinni skoðun bæði hvað varðar það sem tókst vel og það sem mætti bæta. Á svörunum að dæma voru að allir þeir sem sóttu viðburðinn virkilega ánægðir með daginn og einungis léttvægar ábendingar um hvað mætti betur fara sem bárust.“

Að lokum vildu skipuleggjendur þær Hafdís og Elva dögg koma á framfæri allra bestu þökkum til þeirra sem tóku þátt í viðburðinum og vonast til að sjá sem flesta að ári. 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir