Myndarlegur borgarísjaki 20 sjómílur norður af Selskeri

Á vef Landhelgisgæslunnar segir frá því að varðskipið Þór hafi nú á mánudaginn siglt fram á myndarlegan borgarísjaka um 20 sjómílur norður af Selskeri á Húnaflóa. Áhöfn Þórs áætlar að ísjakinn sé um 250 metrar á lengd, 260 metrar á breidd og 15 metra hár.
Líklegt má telja að jakinn sé strandaður þar sem dýpi á svæðinu er um 80 metrar. Nokkuð óvanalegt er að borgarísjakar séu á þessum slóðum á þessum árstíma. Landhelgisgæslan telur ástæðu til að vara sjófarendur við ísjakanum enda getur hann reynst varasamur, sérstaklega í myrkri.
Mikilvægt er að þeir sem eiga leið um svæðið séu meðvitaðir um staðsetningu jakans. Þegar varðskipið Þór sigldi framhjá jakanum var hann á stað: 66°27,7N – 021°30,0V.
Hægt er að skoða fleiri myndir og myndband af borgarísjakanum á heimasíðu Gæslunnar >