Ný tækifæri fyrir listir og nýsköpun

Komið hefur verið á laggirnar nýju samstarfsverkefni milli Nes listamiðstöðvar, Fjölbrautaskóla Norðurlands vestra (FNV) og Sólons myndlistarfélags á Sauðárkróki. Samstarfið felur í sér ný tækifæri fyrir listir og nýsköpun á Norðurlandi vestra. Verkefnið er styrkt af Vaxtarsamningi Norðurlands vestra.

Um er að ræða 12 mánaða verkefni sem býður heimamönnum og nemendum FNV upp á tækifæri til að vinna með listamönnum Nes listamiðstöðvar og stofna til listviðburða með aðstoð þessara þriggja samstarfsaðila. Markmiðið er að opna nýja möguleika fyrir fólk til að njóta og taka þátt í listverkefnum og öðlast skilning á því hvernig hugmyndir geta þróast í nýsköpun og menningarlega fjölbreytni til hagsbóta fyrir landsvæðið.

Markmið verkefnisins eru eftirfarandi:

- Listamaður frá Nes listamiðstöð mun dvelja eina viku í hverjum mánuði í FNV til að efla með nemendum skapandi hugsun og nýja nálgun að efnum og aðferðum. Þess er vænst að verkefnið örvi nám og skapandi hugsun. Í FNV munu alþjóðlegir listamenn deila sérfræðiþekkingu sinni með fyrirlestrum og vinnustofum. Burke Jam, amerískur hljóðlistamaður, sem nú dvelur í Nes listamiðstöð, mun bjóða nemendum og heimamönnum upp á helgarvinnustofu í nóvember undir heitinu „Sound as Photograph“.

- Sólon myndlistarfélag mun hýsa mánaðarlega í Gúttó listsýningu heimamanna eða alþjóðlegra listamanna. Á fyrstu sýningunni mun Renata DeBonis frá Brasilíu sýna málverk og önnur listaverk sem hún hefur skapað í þriggja mánaða dvöl sinni í Nes listamiðstöð. Sýning Renötu, NORÐUR, verður opnuð 16. nóvember.

- Listaspjall (Pecha Kucha) og Pálínuboð (Pot Luck Dinner) í Nes listamiðstöð veita íbúum svæðisins tækifæri til að koma til Skagastrandar og fræðast um hvað alþjóðlegir og íslenskir listamenn eru að vinna að, kynnast menningu þeirra og deila með þeim okkar menningu. Þessir viðburðir eru yfirleitt haldnir í fyrstu viku hvers mánaðar.

- Nes listamiðstöð stendur fyrir „Opnu húsi“ í lok hvers mánaðar þar sem listamenn sýna afrakstur vinnu sinnar og ræða við gesti.

Nánari upplýsingar og væntanlega viðburði má sjá á vefsíðunni: http://nvlist.wordpress.com/

Þeir sem hafa áhuga á að fræðast meira um þetta verkefni er bent á Vicki O Shea verkefnisstjóra, vosh58@gmail.com.

Fréttatilkynning

Fleiri fréttir