Opið hús og Eflum byggð í Námsverinu á Hvammstanga
Á morgun, fimmtudaginn 26. september n.k. verður opið hús í Námsverinu að Höfðabraut 6 á Hvammstanga á vegum Farskólans. Þar mun skólinn kynna námskeið og náms- og starfsráðgjöf á haustönn 2013. Starfsfólk, sem verður í Námsverinu frá kl. 15:30 til kl. 18:00, býður alla velkomna og verður með heitt á könnunni.
Sama dag kl. 18:00 verður svo fræðsluverkefninu Eflum byggð í Húnaþingi vestra slitið í Námsverinu. Stiklað verður á stóru um gang verkefnisins sem stóð yfir í rúmlega tvö ár og var með rúmlega eitthundrað þátttakendur. Íbúum í Húnaþingi gafst kostur á því að setjast á skólabekk og læra tölvur, ensku, átthagafræði, bókhald og fara í frumkvöðlasmiðju sér að kostnaðarlausu.
Í auglýsingu í Sjónaukanum segir að gott væri ef þátttakendur í Eflum byggð sem hyggjast mæta skrái sig á slitin í síma 455 6010 eða netfangið farskolinn@farskolinn.is, upp á veitingar að gera.