Samið um útflutning á 30 þúsund heyrúllum af Mið-Norðurlandi

Blómlegt um að litast í Vatnsdalnum. Myndin tengist fréttinni ekki beint. MYND: ÓAB
Blómlegt um að litast í Vatnsdalnum. Myndin tengist fréttinni ekki beint. MYND: ÓAB

Nú síðustu vikur hafa heykaup Norðmanna af íslenskum bændum verið talsvert í umræðunni í kjölfar mikilla þurrka í Skandinavíu. Lengi vel leit út fyrir að regluverkið gerði útflutninginn ansi flókinn en á heimasíðu Matvælastofnunar segir að eftir nánari athugun hafa lögfræðingar Mattilsynet í Noregi komist að þeirri niðurstöðu að útflutningur á heyi frá Íslandi falli undir ákvæði um frjálst flæði vöru innan Evrópska efnahagssvæðisins. 

„Vegna þessa þarf ekki að gefa út heilbrigðisvottorð við útflutning. Heilbrigðisvottorð sem Matvælastofnun hefði annars gefið út þurfa ekki fylgja sendingum af heyi til Noregs eins og Norðmenn kröfðust áður. Þar með eru heldur engar takmarkanir á því hvaða uppskipunarhöfn er notuð í Noregi. Þeir sem framleiða og selja hey til Noregs skulu vera skráðir hjá Matvælastofnun að kröfu Mattilsynet.

Ákvörðunin breytir stöðu málsins verulega. Útflutningur á heyi til Noregs er því á ábyrgð þess sem kaupir heyið frá Íslandi og flytur það síðan til Noregs.“

Í viðtali í Morgunblaðinu segir Ingólfur Helgason bóndi á Dýrfinnustöðum í Skagafirði, sem unnið hefur ásamt fleirum að þessum útflutningi, að þessi niðurstaða breyti öllu. „Þær þrjár vikur sem ég hef verið að berjast í þessu fóru fyrir lítið og það er gott. Viðurkenningin á því að Norðmenn beri sjálfir ábyrgðina sem kaupendur vörunnar er þó sætust.“ Hann segir að fulltrúar kaupenda hafi farið um landið og vilji kaupa hey frá góðum framleiðendum og segir Ingólfur að hann þekki alla þá bændur sem hann kaupir hey af og treysti þeim til að láta frá sér góða vöru.

Einnig er sagt frá því að samið hefur verið um útflutning á 30 þúsund rúllum af Mið-Norðurlandi til félagasamtaka bænda í Noregi og ku það allt vera nýtt úrvalshey. Fleiri heykaupmenn eru að vinna að málum annars staðar á landinu. Ingólfur segir að stefnt sé að því að fyrsta heyflutningaskipið komi til Sauðárkróks 25. ágúst eða upp úr því, en framhaldið ráðist af því hvernig gangi með fyrsta farminn

Hér má lesa frétt um útflutninginn á heimasíðu Mast >

Heimildir: Mast.is og Morgunblaðið

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir