Sjálfsíkveikjur í þvotti og tuskum
Í apríl á síðasta ári vakti VÍS athygli á hættunni á því að kviknað geti í út frá olíusmituðum þvotti. Þá höfðu þrír brunar á innan við ári orðið hjá viðskiptavinum félagsins þar sem sjálfsíkveikja varð í þvotti sem smitaður var af matarolíu. Auk þeirra var VÍS á þeim tíma kunnugt um a.m.k. fimm önnur tilvik þar sem kviknað hafði í út frá olíum en tekist á síðustu stundu að bleyta í þvottinum og afstýra bruna.
Frá því að VÍS vakti athygli á þessari brunahættu er félaginu ekki kunnugt um eldsvoða af þessu tagi þar til nú í vikunni hjá fatahreinsun á Akureyri. Þar kviknaði í óþvegnum olíusmituðum fatnaði inni í þvottavél.
Vel þekkt er að kviknað getur m.a. í viðarolíu í tuskum, svampi eða öðru slíku og er þá getið um þá hættu á umbúðunum. En sjálfsíkveikja getur einnig orðið í þvotti sem smitaður er matar- eða nuddolíu jafnvel þótt hann hafi verið þveginn því það getur enn verið talsvert eftir af olíu sem ekki þvæst úr tauinu.
Það sem gerist er að inni í hrúgunni verður efnahvarf sem myndar hita. Því stærri sem hrúgan er, því meiri verður einangrunin og hitastigið hækkar hraðar. Að lokum verður hitinn það mikill að eldur kviknar. Ýmis bleikiefni í þvotti geta aukið þessa áhættu en eftir að þvottur er þveginn þá er utanaðkomandi hiti til að mynda frá þurrkara skilyrði.
Þau fyrirtæki sem þetta getur átt við eru m.a. veitingahús, nuddstofur, bakarí, efnalaugar, bifreiðaverkstæði, hótel og atvinnurekstur þar sem viður er olíuborinn. Þessi áhætta getur líka verið á heimilum, m.a. þegar viðarolía hefur verið borin á húsgögn eða matarolía þerruð upp.
Vinnureglur til að draga úr hættu á sjálfsíkveikju:
- Bleyta olíublautar tuskur, setja þær í poka og lofttæma pokann.
- Þvo olíusmitaðan þvott strax.
- Ekki nota þurrkara þegar olíusmitaður þvottur er þveginn. Ef þurrkari er notaður láta hann enda á 10-15 mín. kæliprógrammi eða nota krumpuvarna stillingu á heimilisþurrkurum.
- Láta þurrkara klára prógrammið og geyma þvottinn aldrei í þurrkaranum eftir að hann er búinn.
- Dreifa úr þvotti meðan hann kólnar niður í herbergishita.
- Gæta þess að lósía sé ávallt hrein.
Umfjöllun um sjálfsíkveikjur í þvotti og tuskum má sjá í Kastljósþætti frá því í apríl á síðasta ári má sjá HÉR
/vís