Soroptimistaklúbburinn Við Húnaflóa býður stúlkum á sjálfstyrkingarnámskeið

Soroptimistaklúbburinn Við Húnaflóa bauð öllum stelpum á 12. aldursári í fimm sveitarfélögum í Húnavatnssýslum kostur á að sækja námskeið helgina 24. – 25. október síðastliðinn. Námskeiðið köllum við „Stelpur geta allt“ en markmiðið með því er að styrkja sjálfsmynd ungra stelpna. Kennsla, matur, gisting og afþreying var í boði klúbbsins.
Kristín Tómasdóttir var kennari námskeiðsins en hún hefur í nokkur ár staðið fyrir námskeiðum sem þessum víða um land. Byggir hún þau á bókunum sínum Stelpur (2010), Stelpur A-Ö (2011) og Stelpur geta allt (2012).
Á námskeiðinu „Stelpur geta allt“ er stefnt að því að kenna þátttakendum þrennt:
1) Að þekkja hugtakið sjálfsmynd.
2) Að þekkja eigin sjálfsmynd.
3) Leiðir til þess að hafa jákvæð áhrif á eigin sjálfsmynd.
Námskeiðið tókst í alla staði mjög vel og er hugmyndin að gera þetta að framtíðarverkefni klúbbsins. Margir aðilar gerðu okkur kleift að láta þetta verða að veruleika; Kaupfélag Vestur Húnvetninga lagði til mat, Arion banki Blönduósi, Landsbankinn Skagströnd og Hvammstanga, Gærurnar, Rauðakrossdeildir á Hvammstanga og Blönduósi styrktu með peningagjöfum og Húnavatnshreppur lagði til húsnæði.
Einnig héldum við styrktartónleika þar sem fram komu konur á öllum aldri sem búa á eða tengjast svæðinu okkar á einhvern hátt. Tónleikarnir voru haldnir bæði á Blönduósi og Hvammstanga, ókeypis var á tónleikana en tekið var á móti frjálsum framlögum. Við systurnar við Húnaflóan eru mjög þakklátar fyrir þennan góða stuðning og ánægðar með hvernig til tókst, við hlökkum til að halda aftur námskeið næsta haust.
Fyrir þá sem ekki þekkja þetta orð, Soroptimisti, þá er rétt að útskýra það því auðvelt er að tengja klúbbheitið við verkefnið. Þetta orð er búið til úr orðunum sorores ad optimum sem þýða systur sem vinna að því besta. Soroptimistar eru alþjóðasamtök kvenna sem hvetja m.a. til jafnræðis og jafnréttis og stuðla að því að konur og stúlkur nái í sameiningu fram því besta sem völ er á, bæði sem einstaklingar og sem hópur. Soroptimistar vilja líka auka aðgengi að menntun og efla leiðtogahæfni. Klúbburinn Við Húnaflóa hefur frá stofnun árið 2011 leitað að hentugum verkefnum sem tengjast þessum markmiðum og fellur verkefnið „Stelpur geta allt“ vel að þeim markmiðum.
/Fréttatilkynning