Sparisjóðs-liðakeppnin

Húnvetnska liðakeppnin fær nýtt nafn og nefnist Sparisjóðs-liðakeppnin.  Framundan er spennandi keppni og styttist í fyrsta mót sem verður 11. febrúar í Þytsheimum.

Mótaröðin verður haldin nú í þriðja sinn og þær breytingar hafa orðið á fyrirkomulagi keppninnar frá því í fyrra að 3. flokk verður bætt við ef næg þátttaka fæst og b-úrslit í unglingaflokki tekin út í staðin þar sem tími gefst ekki fyrir fleiri úrslit á einu kvöldi. Einnig bætist skeið við og verður það með smalanum á Blönduósi.

Spkef sparisjóður verður aðalstyrktaraðili keppninnar og mun liðakeppnin því fá nýtt nafn, Sparisjóðs-liðakeppnin.

Ný regla fyrir þetta ár er sú að á lokamóti mótaraðarinnar má ekki bætast nýr aðili við liðið nema hann sé í Neista eða Þyt.

Varamaður mótanefndar, Þórdís Helga Benediktsdóttir, kemur inn í nefndina í vetur þar sem Fanney Dögg Indriðadóttir er í námi á Hólum. En Fanney mun samt sem áður verða nefndinni innan handar. Aðrir í mótanefnd eru Elvar Logi Friðriksson og Kolbrún Stella Indriðadóttir.

Mót Sparisjóðs-liðakeppninnar verða:
11. febrúar - Fjórgangur í Þytsheimum Hvammstanga 26. febrúar - Smali og skeið á Blönduósi (ath laugardagur) 11. mars - Fimmgangur í Þytsheimum Hvammstanga 8. apríl - Tölt í Þytsheimum Hvammstanga

Reglur keppninnar árið 2011:

Liðin skiptast þannig,

Lið 1: Hvammstangi, Miðfjörður og Hrútafjörður Lið 2: Vatnsnes, Vesturhóp og Línakradalur (Gamli Kirkjuhvammshr. og Þverárhreppur) Lið 3: Víðidalur og Fitjárdalur Lið 4: Austur-Húnavatnssýsla Skiptingin er aðeins til viðmiðunar fyrir fólk en ekki bundin við lögheimili.

Knapar verða að vera í sama liðinu allt tímabilið, þ.e. bannað að skipta um lið á miðju tímabili.

Einnig verður hver og einn knapi að velja sér hvort hann ætlar að keppa í 1. 2. eða 3. flokki í upphafi tímabils og má ekki fara á milli flokka á tímabilinu.

Hver keppandi má keppa á fleiri en einum hesti í hverri grein, en ef keppandi kemst með tvo hesta í úrslit verður hann að velja á milli þeirra og aðeins keppa á öðrum í úrslitum. Ekki hægt að fá aukaknapa til að ríða úrslit fyrir sig.

Nánar um stigagjöf og fleira í sambandi við keppnina má sjá á heimasíðu Þyts http://thytur.123.is/

Fleiri fréttir