Sveitarstjórn Húnaþings vestra sendir bókun á matvælaráðherra

Fimm eldislaxar á þurru landi. Þessir voru nýverið háfaðir við Blöndu. MYND; GUÐMUNDUR HAUKUE
Fimm eldislaxar á þurru landi. Þessir voru nýverið háfaðir við Blöndu. MYND; GUÐMUNDUR HAUKUE

Í síðustu viku sendi sveitarstjórn Húnabyggðar frá sér bókun þar sem lýst var þungum áhyggjum vegna þeirrar staðreyndar að eldislaxar væru að veiðast í mörgum ám í sveitarfélaginu og á Norðurlandi vestra. Nú hefur sveitarstjórn Húnaþings vestra sömuleiðis sent frá sér bókun vegna málsins en þar er skorað á matvælaráðherra að beita þeim valdheimildum sem hann hefur í gegnum undirstofnanir sínar til að tryggja að fiskeldisfyrirtækin greiði kostnað vegna mótvægisaðgerða sem veiðifélögin neyðast til að fara í til að verjast strokulaxi úr opnum sjókvíum.

Bókunin er svohljóðandi: „Sveitarstjórn Húnaþings vestra lýsir yfir þungum áhyggjum af þeirri stöðu sem upp er komin í húnvetnskum laxveiðiám þar sem veiðst hafa allmargir eldisfiskar á undanförnum dögum og vikum. Í fyrsta lagi veldur þessi staða áhyggjum hvað varðar erfðablöndun við villta laxveiðistofninn eins og margoft hefur verið ítrekað á síðustu árum. Í öðru lagi er áhætta vegna smitsjúkdóma alltaf fyrir hendi og ef slíkir sjúkdómar breiðast út í stofn viðkomandi ár getur það gert út af við ána á stuttum tíma. Í þriðja og síðasta lagi hefur þessi alvarlega staða mikil áhrif á ímynd og gæði þeirra villtu laxveiðiáa sem fyrir þessu verða. Allir þessir þættir geta valdið miklum búsifjum með tilheyrandi tekjufalli landeigenda og samfélags. Sveitarstjórn Húnaþings vestra skorar á matvælaráðherra að beita þeim valdheimildum sem hann hefur í gegnum undirstofnanir sínar til að tryggja að fiskeldisfyrirtækin greiði kostnað vegna mótvægisaðgerða sem veiðifélögin neyðast til að fara í til að verjast strokulaxi úr opnum sjókvíum.“

Bókuninni hefur verið komið á framfæri við matvælaráðherra.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir