Sýning um íslenskt atvinnulíf á Bifröst
Háskólinn á Bifröst hefur hafið undirbúning að sýningu um íslenskt atvinnulíf. Stefnt er að opnun hennar á Bifröst seinni hluta maímánaðar 2014. Sýningin verður öllum opin og er ætluð bæði almenningi og ferðamönnum. Henni er ætlað að draga upp fjölbreytta og jákvæða mynd af íslenskum fyrirtækjum og þýðingu þeirra fyrir samfélagið.
Stjórnendur og starfsfólk fyrirtækjanna munu kynna starfsemi fyrirtækja sinna eftir margvíslegum miðlunarleiðum og segja frá því hvaða verðmæti fyrirtækin eru að skapa og hvernig þau fara að því. Framtíðarsýn fyrirtækjanna verður ennfremur gerð skil. Sýningargestir eiga að ná góðri snertingu við íslenskt nútímaatvinnulíf á sýningunni.
Sýningin verður jafnframt útbúin í sérstakri skólaútgáfu sem hægt verður að fara með milli grunnskóla og framhaldsskóla til þess að kynna íslenskt atvinnulíf fyrir nemendum. Sýningin getur þá staðið uppi í hverjum skóla í viku í senn þar sem samhliða yrðu skipulagðar sérstakar kynningar á atvinnulífinu. Með þessum hætti er unnt að styrkja mjög tengsl milli atvinnulífsins og skólanna.
María Ólafsdóttir hefur verið ráðinn sýningarstjóri fyrir sýninguna. María starfaði sem blaðamaður á Morgunblaðinu um árabil og hefur auk þess víðtæka reynslu af vinnu við fjölmiðlun. María er með BA gráðu í blaðamennsku frá Háskólanum í Sheffield og MA gráðu í þjóðfræði frá Háskóla Íslands.