Það sem JFK kenndi mér – Áskorendapenni Unnur Valborg Hilmarsdóttir

Fræg eru orð Johns F. Kennedys Bandaríkjaforseta við embættistöku hans í janúar 1961: „Þess vegna, landar mínir, spyrjið ekki, hvað landið ykkar geti gert fyrir ykkur, – spyrjið, hvað þið getið gert fyrir landið ykkar." Þessi orð JFK koma oft upp í huga minn við hin ýmsu tækifæri. Þau má nefnilega heimfæra upp á svo margt. Hvað get ég gefið í samskiptum við fjölskyldu og vini, vinnufélaga, sveitunga? Hvað get ég gefið í félagsskap hverskonar? Hvað get ég gert fyrir samfélagið mitt? Og áfram mætti halda. Það er jú sælla að gefa en þiggja segir einhversstaðar í frægri bók.

Þessi orð forsetans unga hafa verið mér hugleikin síðustu vikurnar eftir að ég hóf störf sem framkvæmdastjóri Samtaka sveitarfélaga á Norðurlandi vestra. Heimfærslan í því tilliti nær yfir Norðurland vestra. Svo orð Kennedys séu aðlöguð lítillega: „Þess vegna, sveitungar mínir, spyrjið ekki, hvað landshlutinn ykkar geti gert fyrir ykkur, – spyrjið, hvað þið getið gert fyrir landshlutann ykkar.“

Víst er að landshlutinn sem ég hef valið að búa og starfa í gerir margt fyrir mig. Hér nýt ég náttúrunnar um svæðið allt, hér eru góð samfélög sama hvar borið er niður í landshlutanum, hér fá börnin mín góða þjónustu í skóla, leikskóla og tómstundum, fólkið hér er framúrskarandi og harðduglegt, og svo mætti lengi telja. Það hefur líka verið ánægjulegt að fylgjast með því sem hefur verið að gerast hér á svæðinu undanfarin misseri. Víða á Norðurlandi vestra er loksins farið að úthluta lóðum til byggingar á íbúðarhúsnæði, fasteignaverð stígur upp á við, farin er af stað atvinnuuppbygging sem unnið hefur verið að um langt árabil, á svæðinu eru starfandi öflug sprotafyrirtæki auk rótgróinna fyrirtækja, menningarstarf hér er öflugt sem fyrr... áfram gæti ég haldið.

Auðvitað er ýmislegt sem betur má fara og ýmsar blikur á lofti, ekki skal draga fjöður yfir það, áfram verðum við að berjast fyrir fjölmörgum málum. Hættan er hins vegar sú í því argaþrasi að hið neikvæða taki yfir og skyggi þannig á sólina. Að við tölum ekki um annað en það sem miður fer, bæði okkar í milli og líka út á við. Það sem vel er gert gleymist, fáir heyra af því sem við erum ánægð með í okkar ágæta landshluta. Hver vill búa eða flytjast í landshluta þar sem allt er ómögulegt?

Ég ætla því að halda áfram að gera það sem ég get gert fyrir landshlutann minn – og við getum öll gert. Ég ætla að halda áfram að gera það sem ég hef tamið mér síðan ég flutti aftur heim fyrir fimm árum, þ.e. að tala samfélagið okkar á Norðurlandi vestra „upp“. Ég ætla ekki að láta það sem upp á vantar skyggja á sólina heldur vera dugleg að tala um það sem við höfum fram yfir svo mörg önnur svæði um leið og ég berst áfram fyrir nauðsynlegum umbótum.

Það get ég gert - það getur þú gert!

Ég skora á nágranna minn, Magnús Eðvaldsson, íþróttakennara og sveitarstjórnarmann í Húnaþingi vestra að taka við pennanum.

Áður birst í 32. tbl. Feykis 2018

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir