Þriðja Guðrúnin kosin formaður FKS

Guðrún Þórdís Halldórsdóttir nýkjörinn formaður FKS. MYND GUÐRÚN KRISTÍN
Guðrún Þórdís Halldórsdóttir nýkjörinn formaður FKS. MYND GUÐRÚN KRISTÍN

Aðalfundur Félags kúabænda í Skagafirði 2024 var haldinn 20. febrúar sl.,vel var mætt á fundinn og Rafn Bergsson formaður nautgripadeildar BÍ var gestur fundarins. Veittar voru viðurkenningar fyrir góðan árangur og formannsskipti urðu, Guðrún Þórdís Halldórsdóttir bóndi á Ytri-Hofdölum var kosin formaður og gaman að segja frá því að hún er þriðji kvenmaðurinn í þeirri stöðu og einnig þriðja Guðrúnin. 

Aðrir í stjórn FKS eru Helga Sjöfn Helgadóttir, Hátúni, Atli Már Traustason, Syðri-Hofdölum, Ragnhildur Jónsdóttir, Stóru-Ökrum 2, Þorbergur Gíslason, Glaumbæ og varamaður er Davíð Logi Jónsson, Egg.

Veitt voru verðlaun fyrir afurðahæsta búið 2023 í Skagafirði, fyrir mestu verðefni og þar var búið á Ytri-Hofdölum efst með samtals 642 kg. verðefni/árskú (7893 kg mjólk, *(4,72% fita + 3,41% prótein)). Nefna verður að nythæsta búið 2023 í Skagafirði með mestu meðalnyt var hins vegar Þorleifsstaðir, alls 7.897 kg/árskú af mjólk og einnig í öðru sæti fyrir verðefni 587 kg. verðefni/árskú.

Afurðahæstu kýrnar 2023 í Skagafirði fyrir verðefni voru verðlaunaðar og í fyrsta sæti var nr. 582 frá Neðra-Ási með 937 kg. verðefni (12.380 kg mjólk, *(4,17% fita + 3,40% prótein)), önnur var Glimmer nr. 334 frá Ytri-Hofdölum með 936 kg. verðefni (12.384 kg mjólk *(4,29% fita +3,27% prótein)) og þriðja var Dana nr. 1073 frá Kúskerpi með 934 kg. verðefni (11.136 kg mjólk*(4,82% fita + 3,57% prótein)).

Þyngsta nautið 2023 í Skagafirði var nr. 666 frá Minni-Ökrum, 529,0 kg og flokkaðist í UN U3-, það var 25,7 mánaða gamalt.

Mestum vaxtarhraða náði naut nr. 1650 frá Hofsstaðaseli 779,8 g/dag/fallþunga. Hann var 445 daga (14,8 mánuða). Fallþungi 367,0 kg og flokkaðist í UN R+2+.

Stigahæstu kýrnar úr árgangi 2018 í Skagafirði voru verðlaunaðar og sú sem var í 1. sæti var Vina nr. 749 frá Skúfsstöðum með 295 stig. Næst var Dopa nr. 710 frá Útvík en hún var með 291 stig og náði öðru sætinu á aukastöfum því þær sem voru í þriðja og fjórða sæti voru einnig með 291 stig en það voru þær Rína nr. 762 frá Glaumbæ og Daney nr. 1167 frá Kúskerpi. Stigin eru reiknuð þannig að útlitsdómur er margfaldaður með tveimur plús afurðaeinkunn. Kýrnar þurftu að vera undir 30 mánaða við fyrsta burð og lifandi í árslok 2023. /Guðrún Kristín Eiríksdóttir

 

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir