Torskilin bæjarnöfn - Jörvi í Víðidal.*

Jörvi í Víðidal. Mynd: Mats.is.
Jörvi í Víðidal. Mynd: Mats.is.

Jörvabæir eru 5 á landinu, flestir bygðir, og sumir sögufrægir að fornu, t.d. Jörvi í Haukadal (Landn.) og Jörvi í Flysjuhverfi (Víga-Styrss. o.fl.). Jörva í Víðidal er fyrst getið í brjefi, ritað 1525 (þá í eyði. DI. IX. 314.), og er þá farið að rita það með f. Aftur á móti er Jörvanafn ávalt ritað með v í Íslendingasögunum (sjá Grettiss., Landn., Þorf. s. karlsefnis og Bjarnar s. Hítdælak.) en í Sturlungu er það ætíð með f (Sturl. II. b. bls. 250, 288 o.v.), og er merkilegt.

Gæti í þessu falist bending um aldur fornrita vorra, ef handritin sýndu t.d. að í þessu nafni væri fyrst á 13. öld byrjað að rita f. Árni Magnússon segir að Jörvi þýði „sljett melholt“ (Jarðabók 1703), og mun það nokkurnvegin rjett. Dr. Finnur Jónsson ákveður ekki merkingu orðsins til fulls, segir það sje „líkrar merkingar og sandur eða melur“. (Safn IV. B. bls. 490.) Ekki verður sjeð að það hafi þýtt sand, en aðeins mela og grjóthóla. Í vísu Björns Hítd.kappa um dráp Þorsteins Kálfssonar segir (bls. 50): 

„Kálfs, veitk at son sjalfan
- sverðagóðs – á roðnum
- raddkappi ne kviddum -
Klifsjörva namk förvi.“

Og mun þar vera átt við melótt land. Í Þorsteins s. Síðu-Hallss. (bls. 22) mun og vera átt við mel eða grjóthól: „Þorsteinn gekk frá at jörva nokkvarum“. Sbr. og þessa landslýsingu: „Þar var þá víða blásið ok jörfi, er þá voru hlíðir fagrar.“ (Fornaldars. Norðurl. II. 558 [sjá Cleasby undir jörfa]). Þegar litið er á norskar myndir orðsins ber að sama brunni með merkinguna. Þar þýðir það melhæðir og grjóthóla (skriðuhóla) og er ritað: jörve, jörva, jarve (kk.), hið síðasta: grýttan jarðveg. Jerva, jærve (kvk), í hinum ýmsu sveitum Noregs. (Torp: bls. 253.) A. Torp telur orðið rótskylt jörð, og telur það af germ. erwan og fornþýzk. ero, sem þýðir jörð. (Torp: bls. 253. Torp segir að norræna orðið sje jörfi, en það er ekki fyllilega rjett. Í fornu máli er það ávalt ritað jörvi, eins og jeg hefi sýnt hjer í skýingunum.)

V í nafninu er því upprunalegt og rjett. Annars er jörð á Gotn. airþa og Engils. eorþ eins og mörgum er kunnugt. Bærinn Jörvi í Víðidal stendur á mel, sem nú er orðinn að túni. Snýr hann suður og norður, og er ef til vill gömul jökulalda, Tel jeg það því áreiðanlegt, að eingöngu melar og grjóthólar hafi verið kallaðir jörvar. Vafalaust standa aðrir Jörvabæir landsins á melum eða í nánd við mela, þótt ekki viti jeg það til fulls, en nafnið bendir á það.

 *Jörvi á Skagaströnd – eyðikot.
Rannsóknir og leiðréttingar Margeirs Jónssonar

Áður birst í 34. tbl. Feykis 2019

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir