Vilja fleiri frábærar konur af Norðurlandi vestra

Bryndís Rún Baldursdóttir. MYND AÐSEND
Bryndís Rún Baldursdóttir. MYND AÐSEND

Bryndísi Rún Baldursdóttur, markaðsstjóra Ungra athafnakvenna, langar að fá fleiri konur af Norðurlandi vestra til að vera með í þessum frábæra félagsskap sem UAK er. Hún setti sig í samband við Feyki og sagði okkur frá því hvað UAK er og líka hver hún sjálf er. „Stundum gætir þess misskilnings að viðkomandi þurfi að vera í atvinnurekstri til að vera í félaginu, það er alls ekki svo. Þetta er vettvangur fyrir konur til að eflast og styrkja tengslanetið sitt, félagið heldur alls kyns viðburði í þeim tilgangi. Það er ekkert aldurstakmark í félagið, allar konur geta verið ungar í anda svo þeim er öllum velkomið að ganga til liðs við okkur.“

UAK, sem stendur fyrir Ungar athafnakonur, er félag sem stofnað var árið 2014 í þeim tilgangi að styðja við bakið á konum sem vilja efla sig í starfi. Helsta markmiðið er að stuðla að jafnrétti, hugarfarsbreytingu og framþróun í samfélaginu. Ung, Skagsfirsk kona, Bryndís Rún Baldursdóttir, tók sæti í stjórn félagsins á árinu og segir okkur frá starfi félagsins. Fimmtudaginn 7. september er fyrsti viðburður starfsársins, opnunarviðburður – Hugrekki til að hafa áhrif.

Bryndís Rún gegnir stöðu markaðsstjóra hjá UAK. Það var Lilja Gylfadóttir sem stofnaði UAK árið 2014. Félagið er fyrir konur sem vilja eflast í starfi og skara fram úr á hinum ýmsu sviðum atvinnulífsins. Stundum gætir þess misskilnings að viðkomandi þurfi að vera í atvinnurekstri til að vera í félaginu, það er alls ekki svo. Þetta er vettvangur fyrir konur til að eflast og styrkja tengslanetið sitt, félagið heldur alls kyns viðburði í þeim tilgangi. Það er ekkert aldurstakmark í félagið, allar konur geta verið ungar í anda svo þeim er öllum velkomið að ganga til liðs við okkur. Við skiptum árinu upp í annir eins og skólarnir gera, haustönn og vorönn en á starfsárinu verða um 12 viðburðir, sá fyrsti núna á fimmtudagskvöld, opnunarviðburður – Hugrekki til að hafa áhrif. Hann fer fram í Grósku hugmyndahúsi í Reykjavík og hefst klukkan 20:00 og er opinn öllum sem hafa áhuga á að kynna sér félagið. Tilgangur og markmið þessa viðburðar er að veita félagskonum, og öðrum gestum, hugvekju og hvatningu til þess að hafa áhrif á einn eða annan hátt. Við fáum flotta fyrirlesara, Eva Mattadóttir ein af stjórnendum hlaðvarpsins Normið mun opna dagskrána með hugvekju og í framhaldi gefst gestum tækifæri til þess að fara á trúnó með Höllu Tómasdóttir, forstjóra B Team.

Eva Mattadóttir er athafnakona, þjálfari, barnabókahöfundur og eigandi vefverslunarinnar boheme.is. Eva lætur fátt stoppa sig og hikar ekki við að tala um málefni sem skipta hana máli.

Halla Tómasdóttir er forstjóri B Team sem starfar á heimsvísu að því markmiði að leiða umbreytingu í viðskipta- og stjórnunarháttum í átt til betra samfélags. Þá hefur Halla unnið hjá stórfyrirtækjum á borð við Pepsi og M&M/Mars, tekið virkan þátt í uppbyggingu Háskólans í Reykjavík og leitt verkefnið Auður í krafti kvenna. Halla var annar stofnenda Auðar Capital, einn stofnenda Mauraþúfunnar sem hélt Þjóðfund árið 2009 og árið 2016 bauð hún sig fram til forseta Íslands. Hún er rekstrarhagfræðingur, frumkvöðull og alþjóðlegur fyrirlesari sem trúir að hugrekkið sé til alls fyrst.

Um 400 konur eru í félaginu og vill Bryndís Rún sjá fleiri Skagfirðinga og Húnvetninga ganga til liðs við UAK. „Félagið er á landsvísu en flestir viðburðir fara fram í Reykjavík. Ég fann með sjálfa mig hvað ég styrktist og efldist við að ganga í félagið og bíð full eftirvæntingar hvaða tækifæri stjórnarsetan mun færa mér. Það að hitta og kynnast öðrum konum sem stefna hátt er mjög gott og hvetjandi svo ég mæli eindregið með þessum félagsskap. Félagið hefur einnig styrkt tengslanetið mitt og ég trúi því að það sé dýrmætt veganesti inní framtíðina á atvinnumarkaði“ segir Bryndís Rún.

Bryndís Rún er uppalin á Sauðárkróki, flutti nítján ára til Reykjavíkur en ræturnar toga alltaf og hugsar hún reglulega heim í fjörðinn fagra. ,,Að alast upp í samfélaginu á Sauðárkróki hefur óneitanlega haft áhrif á hvernig ég hef mótað ferilinn minn og hvaða verkefni ég hef valið mér og boðist mér hingað til. Ég spilaði fótbolta með Tindastól, stundaði hestamennsku með fjölskyldunni og tók virkan þátt í félagsstarfi á unglingsárunum á Sauðárkróki. Ég fann fyrir samstöðu, kærleika og þrauseigju í firðinum heima þegar ég ólst þar upp og hef nýtt mér það í vegferð minni á náms- og starfsferlinum. Ég brenn fyrir að vinna með fólki, góð samvinna og árangur hvetja mig áfram. Ég nýt mín við að takast á við stórar áskoranir og ná settum markmiðum. Ég flutti frá Sauðárkróki til Reykjavíkur, þaðan fór ég til London í eitt ár, þegar ég kom aftur heim til Íslands hóf ég nám í Háskóla Íslands. Lauk þar BS.c. í Viðskiptafræði og svo í beinu framhaldi MS.c. í Markaðsfræði og alþjóðaviðskiptum. Nú gegni ég starfi markaðsstjóra á Heilsu- og íþróttasviði hjá Icepharma. Ég hef verið svo heppin að vinna með kraftmiklum konum sem hafa veitt mér mikinn innblástur og styrk í starfi. Ég bauð mig fram í stjórn UAK því ég vil efla ungar konur í atvinnulífinu og vera hluti af vegferð þeirra á atvinnumarkaði. Ég hef verið félagskona síðastliðin tvö ár og hefur starf félagsins styrkt mig í starfi og þróað minn feril á atvinnumarkaði ásamt því að efla tengslanetið mitt.“ segir Bryndís.

Hvetur hún allar konur að kynna sér starfsemi UAK og mæta á þennan fyrsta viðburð haustsins. „Það er mjög margt í gangi hjá okkur, á þessu starfsári verða um tólf viðburðir eða u.þ.b. tveir að meðaltali í mánuði en um er að ræða fjölbreytta viðburði. Einnig verður okkar árlega ráðstefna haldin í Hörpu í vor. Ítarleg dagskrá verður kynnt á opnunarviðburðinum. Allt eru þetta viðburðir sem stuðla að því að auka styrkleika félagskvenna og fylla þær eldmóði. Einnig getur myndast betri tengslamyndun en út frá henni spretta oft upp tækifæri. Þessi félagsskapur hefur gefið mér mjög mikið og ég vil sjá fleiri konur úr Skagafirði, já og alls staðar að, ganga til liðs við okkur,“ sagði Bryndís Rún að lokum.

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir