Unnið að deiliskipulagi fyrir Kolugljúfur
Sveitarstjórn Húnaþings vestra hefur með samþykki landeigenda ákveðið að gera deiliskipulag fyrir Kolugljúfur í Víðidal og aðliggjandi umhverfi. Markmiðið með fyrirhuguðu skipulagi er að bæta aðgengi, upplýsingar, öryggi og umferð ferðamanna um skipulagssvæðið. Það verður m.a. gert með skipulagningu bílastæða, staðsetningu þjónustu-og salernishúss, útsýnispalla, göngubrúa, stíga, skilta og annarra tilheyrandi mannvirkja.
Skipulagslýsing sem kynnt var á fundi Skipulags-og umhverfisráðs þann 1. desember síðastliðinn, var auglýst 9. desember 2016 og veittur frestur til 3. janúar sl. til að skila athugasemdum. Tvær umsagnir og ábendingar bárust og vísaði skipulags-og umhverfisráð umsögnum til vinnslu deiliskipulags. Ráðið benti einnig á að sveitastjórn þurfi að beita sér fyrir úrbótum á vegtengingu milli þjóðvegar og deiliskipulagssvæðis, að því er fram kemur í fundargerð ráðsins frá 5. janúar sl.