Uppbygging teyma heilbrigðisstarfsfólks

Heilbrigðisráðherra hefur svarað fyrirspurn Bjarna Jónssonar frá 5. apríl síðastliðnum um skort á læknum og öðru heilbrigðisstarfsfólki á landsbyggðinni.

Bjarni spyr meðal annars: „Hvernig hyggst ráðherra bregðast við bráðum skorti á læknum og heilbrigðisstarfsfólki víða á landsbyggðinni? Telur ráðherra koma til álita að grípa til sértækra aðgerða og ef svo er, hvernig og hvar telur ráðherra brýnast að ráðast í slíkar aðgerðir með vísan til búsetuöryggis?“
Svar Heilbrigðisráðherra barst í gær og var erftirfarandi: „Heilbrigðisstarfsmenn eru takmörkuð auðlind um allan heim og því alþjóðlegt viðfangsefni að tryggja næga mönnun innan heilbrigðiskerfisins. Menntun, þekking og hæfni heilbrigðisstarfsmanna eru þar lykilþættir. Til að tryggja sem best aðgengi að heilbrigðisþjónustunni er mikilvægt að nýta fjölþættar leiðir og hámarka nýtingu þekkingar heilbrigðisstarfsmanna í veitingu þjónustunnar.
Vegna mikilvægis þessa þáttar heilbrigðisþjónustunnar hefur verið gripið til ýmissa aðgerða. Á síðasta ári var komið á fót sérstökum samráðsvettvangi, landsráði um mönnun og menntun í heilbrigðisþjónustu. Í landsráðinu eru ýmsir sérfræðingar skipaðir af heilbrigðisráðherra en ráðið er skipað fulltrúum frá heilbrigðisstofnunum og heilsugæslu, ráðuneytum menntamála, háskólasamfélaginu, Sambandi íslenskra sveitarfélaga og embætti landlæknis. Því er ætlað að vera ráðgefandi við undirbúning ákvarðana heilbrigðisráðherra á sviði mönnunar og menntunar í heilbrigðisþjónustu og vera samráðsvettvangur á þessu sviði með virku samráði, t.d. við sjúklingasamtök, fagfélög, menntastofnanir og aðra hagsmunaaðila.
Frá stofnun landsráðs um mönnun og menntun í heilbrigðisþjónustu hafa mörg verkefni verið sett í gang. Meðal annars er unnið að gagnaöflun og greiningarvinnu er varðar heilbrigðisstéttir um allt land. Tvö stærstu verkefnin sem eru í vinnslu snúa að fjármögnun sérnáms til heilbrigðisstofnana og verkaskiptingu heilbrigðisstétta svo að þekking þeirra nýtist sem best. Ef sú greiningarvinna sem er í gangi í heilbrigðisráðuneytinu í samstarfi við landsráð um mönnun og menntun í heilbrigðisþjónustu kemur til með að leiða í ljós að grípa þurfi til sértækra aðgerða er varða mönnun og menntun heilbrigðisstarfsfólks með tilliti til landsins alls þá kemur til greina að skoða það að ráðast í slíkar sértækar aðgerðir. Einn möguleikinn á þess háttar aðgerð væri að nýta lög nr. 60/2020, um menntasjóð íslenskra námsmanna, en VII. kafli fjallar um heimildir fyrir sértækar aðgerðir vegna tiltekinna námsgreina og vegna námsgreina á sérstökum svæðum sem viðkomandi ráðherra 1 getur ákveðið að uppfylltum ákveðnum skilyrðum.
Til að nýta sem best sérþekkingu fagstétta og jafna aðgang að þeim um allt land er einnig horft til samstarfs og uppbyggingar ýmissa teyma sérgreina eða í kringum sjúkdóma sem jafnvel starfa á landsvísu. Uppbygging almennra og sérhæfðra geðheilsuteyma heilsugæslunnar er hluti af slíku fyrirkomulagi.“

Svör við fyrirspurn Bjarna má finna hér

/IÖF

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir