Útivist og náttúruupplifun fyrir ferðamenn í tæpa fjóra áratugi

Arinbjörn Jóhannsson, ásamt Claudiu eiginkonu sinni og Pálínu dóttur þeirra, stödd á  Arnarvatnsheiði. Mynd/Úr einkasafni.
Arinbjörn Jóhannsson, ásamt Claudiu eiginkonu sinni og Pálínu dóttur þeirra, stödd á Arnarvatnsheiði. Mynd/Úr einkasafni.

Á Brekkulæk í Húnaþingi vestra rekur Arinbjörn Jóhannsson ferðaþjónustufyrirtæki sem gerir út á að bjóða upp á fjölbreyttar ferðir um land allt, með áherslu á útivist og náttúruupplifun auk þess að veita ferðamönnum innsýn í lífstíl fólks í dreifbýlinu. Fyrirtækið hlaut á dögunum verðlaun frá þýska Nordis forlaginu sem gefur út tímarit um málefni Norðurlandanna og hefur um áratuga skeið verið eitt það virtasta sinnar tegundar á þýsku málsvæði. Blaðamaður Feykis leit í heimsókn til Arinbjarnar og fjölskyldu á fallegum vordegi. 

Í dag býður Arinbjörn upp á hestaferðir, gönguferðir, réttarferðir, fuglaskoðunarferðir og norðurljósaferðir. Þegar Arinbjörn er spurður hvernig hann þróar ferðirnar svarar hann eftir smá umhugsun. „Eiginlega býður maður upp á það sem maður hefur sjálfur gaman af. Ég, eins og allir Húnvetningar, er aðdáandi Arnarvatnsheiðinnar út í gegn, hef alltaf verið. Þetta er þrítugasta sumarið sem ég er með gönguferðir yfir Arnarvatnsheiði, það var ein ferð fyrsta sumarið og nú er ég með átta ferðir,“ segir hann. En hvað er svona heillandi við hana? „Já, það er stóra spurningin. Því er enn ósvarað,“ svarar Arinbjörn og kímir.

Arinbjörn hefur löngum verið í góðu samstarfi við nærliggjandi bændur. Ferðin sem verðlaunuð var á dögunum var gönguferð í tengslum við réttir og þótti þátttakendum frá Nordis-forlaginu mikið til þess koma í hve nánum tengslum þau voru við sveitafólkið í ferðinni. 

„Ég hef farið í göngur hérna alla mína tíð, er fæddur hér og uppalinn og þekki alla sveitungana. Ég held ég hafi fengið verðlaun fyrir það að ferðmennirnir fá að taka þátt í öllu saman, draga í dilka í Miðfjarðarrétt, sem er hérna rétt við hlaðið, ef þeir vilja og svo er farið á réttarball á eftir en það er innifalið í pakkanum. Ég segi alltaf öllum að þetta er ekki þjóðlagakvöld, fólk er ekki í þjóðbúningum, þetta er bara réttarball á Laugarbakka,“ útskýrir hann. Verðlaunin segir hann vissulega vera góða kynningu fyrir fyrirtækið og gaman að fá slíka viðurkenningu.  

Ítarlegt viðtal við Arinbjörn má lesa í Feyki sem kemur út í dag. 

Fleiri fréttir