80 ára afmæli Sveitarfélagsins Skagastrandar

Skagaströnd. Mynd: northwest.is
Skagaströnd. Mynd: northwest.is

Sveitarfélagið Skagaströnd, sem áður hét Höfðahreppur, fagnar 80 ára afmæli um þessar mundir en það var um áramótin 1938-1938 sem Vindhælishreppi hinum forna var skipt upp í þrjú sveitarfélög og var Höfðahreppur eitt þeirra. Hin tvö voru Vindhælishreppur og Skagahreppur. Magnús B. Jónsson, fyrrverandi sveitarstjóri á Skagaströnd, segir frá tildrögunum að skiptingu þessari í fróðlegum pistli á vef Skagastrandar.

Þéttbýlið á Skagaströnd á þó rætur að rekja talsvert lengra aftur í tímann og um aldamótin 1900 voru íbúar þorpsins um 60 manns og stóðu þá 15 hús á staðnum. Verslun hófst á Skagaströnd mun fyrr og benda heimildir til þess að hún hafi hafist fyrir setningu einokunarverslunarinnar 1602 því Skagaströnd varð einmitt einn hinna illræmdu verslunarstaða danskra kaupmanna í þau 185 ár sem einokunarverslunin stóð fram til 1787.

Um tildrög að skiptingu Vindhælishrepps segir Magnús að þar sem hreppurinn var víðfemur, náði allt frá Skagatá og fram að Kirkjuskarði á Laxárdal, hafi farið að bera á því strax árið 1872, þegar farið var að skipa hreppsnefndir, að vegalengdir hafi þótt miklar fyrir þá sem bjuggu næst endamörkum hreppsins. Að vísu megi rekja hugmyndir um skiptingu hreppsins enn lengra aftur eða allt til ársins 1806.

Þorpið á Skagaströnd fór svo stækkandi  og fór að bera á ágreiningi milli þorpsbúa og þeirra sem í sveitunum bjuggu. Eftir hreppsnefndarkosningar 1937, en þá náðu þorpsbúar meirihluta í hreppsnefnd, varð ljóst að skipting hreppsins væri nauðsynleg og og eftir allnokkur fundahöld fékkst niðurstaða í þau ágreiningsmál sem helst var tekist á um en það voru ómagaframfærsla og hve mikið land ætti að fylgja þorpinu.

Á hreppsnefndarfundi á Þorláksmessu árið 1938 var skipting hreppsins í þrjá hreppa rædd og ákveðið að aðskilnaður hreppanna tæki gildi 1. janúar 1939 en kosning nýrra hreppsnefnda skyldi fara fram 15. janúar 1939.

Nafni sveitarfélagsins var svo breytt úr „Höfðahreppur“ í „Sveitarfélagið Skagaströnd“ eftir atkvæðagreiðslu um nafnabreytinguna samhliða sveitarstjórnarkosningum 2006. 

Pistil Magnúsar í heild má lesa hér.

Fleiri fréttir