Barnalífeyrir greiddur með börnum yngri en 18 ára

Silja Dögg Gunnarsdóttir, þingmaður Framsóknarflokks ú Suðurkjördæmis.
Silja Dögg Gunnarsdóttir, þingmaður Framsóknarflokks ú Suðurkjördæmis.

Frumvarp Silju Daggar Gunnarsdóttur, um breytingar á lögum um almannatryggingar og snýr að barnalífeyri, var samþykkt með 55 samhljóða atkvæðum í dag. Frumvarpið felur í sér þær breytingar að Tryggingastofnun ríkisins getur ákveðið sérstakt framlag vegna útgjalda við skírn barns, fermingu, gleraugnakaup, tannréttingar, vegna sjúkdóms, greftrunar eða af öðru sérstöku tilefni.

Í greinagerð segir:
Um 900 börn á Íslandi sem nú eru á aldrinum 0–18 ára hafa misst foreldri.
    Barnalífeyrir er greiddur með börnum yngri en 18 ára, ef foreldri er látið eða er elli-, örorku- eða endurhæfingarlífeyrisþegi. Einnig geta einstæðir foreldrar sótt um barnalífeyri í stað meðlags ef ekki er hægt að feðra barn (getur t.d. átt við um tæknifrjóvgun). Frá 1. janúar 2018 er barnalífeyrir 33.168 kr. á mánuði með hverju barni eða 398.016 kr. á ári.
    Samkvæmt 60. gr. barnalaga, nr. 76/2003, má úrskurða meðlagsskyldan aðila til greiðslu framlaga vegna skírnar, fermingar, gleraugnakaupa, tannréttinga, sjúkdóms eða greftrunar. Önnur tilefni geta einnig orðið grundvöllur slíkra framlaga en þó aðeins ef þau eru sérstaks en ekki almenns eðlis, enda er reglubundnum meðlagsgreiðslum ætlað að standa straum af almennri framfærslu barns. Dómsmálaráðuneytið gefur út leiðbeiningar til sýslumanna um viðmiðunarfjárhæðir vegna krafna um sérstök framlög og ber að uppfæra þær árlega miðað við vísitölu neysluverðs. Samkvæmt upplýsingum á vef sýslumanna (2018) þykja fjárhæðirnar hæfilega ákveðnar sem hér segir:
    72.000–95.000 kr. vegna fermingar,
    19.000–24.000 kr. vegna skírnar,
    72.000–106.000 kr. vegna greftrunar.
Ekki eru gefnar út leiðbeiningar vegna annarra framlaga sem hér eru talin.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir