Frostið fór í 25 gráður á Sauðárkróksflugvelli í gær

Þegar þessi mynd var tekin upp úr hádegi á Króknum í gær sýndi bílmælirinn -20°. Þrátt fyrir það voru iðnaðarmenn við vinnu í grunni iðnaðarhúsnæðis sem Vélsmiðja Grundarfjarðar er að reisa á horni Hegrabrautar og Strandvegar. Tindastóllinn alltaf flottur. MYND: ÓAB
Þegar þessi mynd var tekin upp úr hádegi á Króknum í gær sýndi bílmælirinn -20°. Þrátt fyrir það voru iðnaðarmenn við vinnu í grunni iðnaðarhúsnæðis sem Vélsmiðja Grundarfjarðar er að reisa á horni Hegrabrautar og Strandvegar. Tindastóllinn alltaf flottur. MYND: ÓAB

Það hefur verið fimbulkuldi hér fyrir norðan síðustu daga en í gær var minnstur hiti á landinu á Sauðárkróksflugvelli eða mínus 25 gráður. Bíleigendur á Sauðárkróki skulfu margir hverjir þegar þeir settust inn í farartækin sín og hitamælar sýndu um 20 stiga frost. Þekktir kuldapollar eru í Skagafirði og þá ekki hvað síst í nágrenni Héraðsvatna. Þannig mátti lesa á samfélagsmiðlum að mælar hefðu sýnt allt að 29 stiga frost við Löngumýri.

Frostið beit áfram í morgun en veður er stillt og fallegt alla jafna. Nú um klukkan níu gerði Veðurstofan ráð fyrir 15 stiga frosti á Sauðárkróki, 12 stigum á Blönduósi en heldur hlýrra á annesjum því á Hrauni átti frostið að vera 8 gráður. Á morgun, laugardag, má reikna með að hitatölur fikri sig töluvert nær frostmarkinu en rauðar tölur eru þó ekki í spánum fyrr en á miðvikudag. Nú um helgina er spáð frekar tíðindalitlu veðri, stilltu og lítilli úrkomu en þó gæti snjóað lítilsháttar á stöku stað.

Flestir vegir eru færir á Norðurlandi vestra en alla jafna hálka á þeim. Greiðfært í Blönduhlíðinni en snjóþekja á Siglufjarðarvegi. Þar gengur á með éljum sem og á Þverárfjallsvegi.

Þá er rétt að minna fólk á að fara sparlega með heita vatnið og að passa upp á bílana – rafmagnið gæti látið ófriðlega í þessum aðstæðum.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir