Gagnabanki með gönguleiðum á Norðurlandi í vinnslu

Vinsælt er að ganga á Spákonufell við Skagaströnd. Mynd:FE
Vinsælt er að ganga á Spákonufell við Skagaströnd. Mynd:FE

Markaðsstofa Norðurlands safnar nú GPS-merktum gönguleiðum innan sveitarfélaga á Norðurlandi og hefur í því skyni sent bréf til allra 20 sveitarfélaganna í landshlutanum þar sem óskað er eftir upplýsingum um merktar og viðurkenndar gönguleiðir sem ætlunin er að veita aðgang að á vefnum. Verkefnið er helst ætlað til leiðsagnar fyrir erlenda ferðamenn en verður þó einnig aðgengilegt Íslendingum. Frá þessu er sagt á vef Ríkisútvarpsins.

Í samtali við Björn H. Reynisson, verkefnastjóra áfangastaðaáætlana hjá Markaðsstofu Norðurlands, sem fer fyrir verkefninu segir hann að í raun sé verið að óska eftir lýsingu á gönguleiðunum og öllum grunnupplýsingum um það hvernig leiðin sé upp byggð, hve löng hún sé og svo framvegis. „En auk þess ætlum við að biðja alla um að leiðin verði trökkuð, eða GPS-hnituð, til þess að það verði þá hægt að setja hana inn á miðlægan gagnagrunn á netinu,“  segir Björn.

Margar gönguleiðir á svæðinu hafa ratað inn á hin ýmsu kort og bækur en aldrei verið teknar saman með þessum hætti að sögn Björns sem vonar að hægt verði að sækja gönguleiðirnar ókeypis á netinu strax um næstu áramót.

„Okkur langar í raun og veru að gera þessar gönguleiðir aðgengilegar fyrir, í raun og veru, alla en einna helst erlenda ferðamenn,“ segir Björn. Einfalt verður svo að sækja gögnin og hlaða þeim jafnvel inn í Google Maps eða aðrar kortaþjónustur á vefnum.

Verkefnið verður unnið í samvinnu við sveitarfélögin enda gerir Björn þær kröfur að leiðirnar liggi um svæði sem leyfilegt er að ganga um og að öll leyfi landareigenda séu fyrir hendi. Einnig er óskað eftir upplýsingum um hversu erfiðar leiðirnar eru. Viðbrögð við verkefninu hafa verið góð og margir viljað koma fleiri leiðum að en mögulegt er að því er Björn segir í samtali við fréttastofu RÚV.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir