Gleði og gaman á Kótilettukvöldi í Eyvindarstofu
Það var ekki bara Kaupfélag Skagfirðinga sem stóð fyrir veislu um helgina, Valli í Húnabyggð lét ekki deigan síga og stóð fyrir 51. kótilettukvöldinu sem fram fór í Eyvindarstofu á Blönduósi. „Mikil gleða og en meira gaman,“ skrifar Valli á Facebook sem segir að Helgi Páll veislustjóri hafi farið á slíkum kostum að hann var umsvifalaust ráðinn til að endurtaka leikinn að ári.
„Hann og Ásmundur með gítarnn gerðu kvöldið mjög gott, ekki má gleyma okkar árlegu rjúpnaskyttum sem mæta altaf á þetta kvöld og gera það enn betra,“ segir Valli.
Að venju eru kótiletturnar nú settar í frysti og hlé gert á kótilettukvöldum fram á næsta ár og Húnvetningar og gestir þeirra snúa sér nú að því að njóta jólahlaðborða og þorrablóta.
Að sjálfsögðu er búið að plana langt fram í tímann og fyrsta kótilettukvöld ársins 2026 verður laugardaginn 7. mars. „Trúlega í félagsheimilinu á Blönduósi þar sem nú þegar er orðið bókað eins og kemst í Eyvindastofuna,“ skrifar Valli.
