Grannaslagur í Mjólkurbikarnum á morgun

Fyrsti alvöru fótboltaleikur sumarsins verður á morgun, sunnudag, þegar lið Tindastóls tekur á móti grönnum sínum í Kormáki/Hvöt. Leikurinn hefst kl. 14:00 á gervigrasinu á Sauðárkróki og er liður í 1. umferð Mjólkurbikarsins. Reikna má með hörkuleik þó hvorugt liðið hafi spilað fótboltaleik síðan snemma árs og spurning hvort leikmenn verði eins og beljur að vori – eða þannig.

Þrír enskir leikmenn Tindastóls verða að líkindum með en þeim verður bókstaflega sleppt út úr sínum bás á morgun því þá klára þeir einmitt 14 daga í sóttkví. Þeir hafa því ekki æft með sínum félögum síðan þeir komu til landsins og spurning hvernig og hvort þeir verði notaðir.

Feykir lagði nokkrar spurningar fyrir Bjarka Má Árnason, þjálfara Kormáks/Hvatar, og forvitnaðist til að byrja með um hvernig Bjarka litist á leikinn. „Leikurinn leggst bara vel í mig sem og liðið mitt. Strákarnir mínir eru klárir í þessa skemmtilegu rimmu. Það er alltaf gaman að keppa og ekki verra að það sé gegn Stólunum og í raun bara loksins alvöru keppnisleikur.“

Er lið Kormáks/Hvatar fullmannað?„Liðið er nánast orðið fullmannað, en það er líklegt að 1-2 leikmenn bætist við á allra næstu dögum.“ 

Hvert er markmiðið í sumar?„Markmiðið er að fara í úrslitakeppnina og þegar þangað er komið er allt mögulegt, vonandi náum við einu skrefi lengra en í fyrra. En við erum í erfiðum riðli og því er markmið nr.1 að komast í úrslitakeppnina.“ 

Hverju megum við búast við á gervigrasinu á morgun?„Ég myndi reikna með fjörugum og skemmtilegum leik þar sem tekist verður á. Leikmenn liðanna koma til með að selja sig dýrt og vonandi verður fjölmenni, enda langt síðan þessi lið hafa mæst,“ segir Bjarki að lokum.

Þá er bara að skella sér á völlinn og það er meira að segja útlit fyrir fínasta fótboltaveður, bæði fyrir leikmenn, dómara og áhorfendur! Áfram ....!

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir