Hákarlinn í hávegum á fundaröð í Húnabúð

Hákarlaskipið  Ófeigur. Mynd:visithunathing.is
Hákarlaskipið Ófeigur. Mynd:visithunathing.is

Byggðasafnsnefnd Húnvetningafélagsins í Reykjavík stendur fyrir fyrirlestraröð í Húnabúð í Reykjavík dagana  19., 21., og 28. mars og hefjast allir fundirnir klukkan 17. Allir tengjast fundirnir hákarli með einhverjum hætti. Vill Húnvetningafélagið með þeim reyna að breyta kuldalegu viðmóti Íslendinga til hákarlsins og vingast við hann og rétta hlut hans, að því er segir í tilkynningu á fréttavefnum Húna.is.

Í tilkynningunni segir: „Einn merkasti gripur Byggðasafnsins á Reykjum er hákarlaskipið Ófeigur, sem á þar sína eigin skemmu. Veiðar á hákarli kostuðu langa útiveru, stórt skip og langan vað til veiðanna. Hákarlinn liggur gjarnan djúpt, 180-730 m á sumrin segir Wikipedia. En hákarlinn færir sig nær yfirborðinu á veturnar í þeirri von að ná sér í sel.“

Þá segir að byggðasafnsnefndin telji að hákarlinn verðskuldi ekki kuldalegt viðmót af hálfu Íslendinga sem oft eru kuldalegir sjálfir. Íslendingar hafi of lengi haft horn í síðu hákarlsins og of lengi hafi þeir hrakyrt hann og kúgast yfir honum, nema þá helst með brennivíni á þorrablótum. Þeir hafi kallað hákarlinn að minnsta kosti 85 nöfnum sem flest séu þannig að menn vildu ekki bera þau sjálfir, s.s. gráni, deli, brettingur, doggur og raddali. Þó séu hákarlar tiltölulega þýðar hæfileikaskepnur og geti til dæmis gleypt stóran sel í einum munnbita.

Fundirnir og efni þeirra verða sem hér segir:

Þriðjudaginn 19.3. - Kynning á Byggðasafninu á Reykjum og hákarlaskipinu Ófeigi. Jón Björnsson frá Húnsstöðum  glöggvar gesti á þema fundanna. Þór Magnússon fv. þjóðminjavörður segir frá safni og skipi.

Fimmtudagurinn 21.3. - Hallgrímur Helgason rithöfundur - Hákarlaveiðar í nýjustu bók höfundarins, Sextíu kíló af sólskini.

Fimmtudagurinn 28.3. - Klara Jakobsdóttir fiskifræðingur hjá Hafrannsóknarstofnun fjallar um hákarl.

Aðgangseyrir er 1.000 krónur og boðið verður upp á kaffi og kleinur.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir