Halló frumkvöðlar og aðrir hugmyndasmiðir á Norðurlandi vestra

Icelandic Startups verður með kynningarviðburð á viðskiptahraðlinum Til sjávar og sveita fyrir Norðvesturlandi á Sauðárkróki nk. föstudag kl 12 – 14. Hraðallinn býður upp á metnaðarfullan vettvang til vöruþróunar fyrir verkefni sem snúa að hátækni í matvælaiðnaði, nýjum lausnum í landbúnaði og haftengdum iðnaði og betri nýtingu hráefna þar sem sjálfbærni og nýsköpun eru höfð að leiðarljósi. Hraðallinn er tilvalinn vettvangur fyrir þá frumkvöðla sem vilja ná lengra á styttri tíma og efla tengslanetið til muna.

Icelandic Startups vill hvetja frumkvöðla á svæðinu á sviði landbúnaðar, sjávarútvegs eða smásölu að koma á kynningarfundinn en farið verður yfir hvaða tækifæri liggja í þátttöku verkefnisins sem fer fram í haust. Ásamt því mun frumkvöðullinn Hildur Magnúsdóttir hjá Pure Natura deila sinni reynslu af þátttöku í hraðlinum og verður boðið upp á fría vinnusmiðju um mótun viðskiptahugmynda.

Í tilkynningu frá Icelandic Startups segir að Hraðallinn, sem hefur göngu sína í annað sinn næsta haust, sé einnig tilvalinn vettvangur fyrir þróun tæknilausna ætlaðar verslun og þjónustu, t.d. greiðslumiðlun, birgðastýringu, flutningi o.þ.h. sem snýr að því að koma vörum í hendur viðskiptavina. Hraðlinum er ætlað að hraða ferlinu frá því að hugmynd kviknar þar til vara er komin á markað.

Tíu fyrirtæki verða valin til þátttöku í tíu vikna viðskiptahraðal sem hefur göngu sína í annað sinn nú í haust. Lögð verður áhersla á að nýta fjarfundatækni þannig að hægt sé að takmarka ferðir til höfuðborgarsvæðisins fyrir þá sem búa annars staðar á landinu. Þátttakendur njóta leiðsagnar fjölda reyndra frumkvöðla, fjárfesta og annarra sérfræðinga auk fræðslu og þjálfunar og fjölda tækifæra til að koma hugmyndum sínum á framfæri og efla tengslanetið.

„Lumar þú á lausn? Sjá nánari upplýsingar um viðskiptahraðalinn á www.tilsjavarogsveita.is, en opið er fyrir umsóknir til og með 15. júní. Vonumst til að sjá ykkur sem flest á kynningarfundinum sem fer fram á föstudag í Farskólanum kl 12:00-14:00. Boðið verður upp á léttan hádegisverð,“ segir í tilkynningu Icelandic Startups.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir