Íbúum Skagabyggðar fjölgar hlutfallslega mest

Króksbjarg í Skagabyggð. Mynd: northwest.is
Króksbjarg í Skagabyggð. Mynd: northwest.is

Íbúum Norðurlands vestra hefur fjölgað um 17 einstaklinga frá 1. desember til 1. júní sl. samkvæmt tölum Þjóðskrár. Mesta fjölgunin í landshlutanum á þessu tímabili var í Sveitarfélaginu Skagafirði þar sem fjölgaði um níu manns en hlutfallslega varð mest fjölgun í Skagabyggð þar sem átta nýir íbúar bættust við og nemur það 8% fjölgun. Það er jafnframt mesta hlutfallslega fjölgunin á landsvísu yfir tímabilið.

Lítilsháttar fólksfjölgun hefur orðið í öllum landshlutum á tímabilinu, nema á Vestfjörðum þar sem fólksfjöldi stendur í stað. Mest fjölgaði íbúum í Reykjavík eða um 908 manns en hlutfallslega varð fjölgunin mest á Suðurlandi, um 1,7% eða 490 íbúa.

Íbúafjöldi Norðurlands vestra var 7.244 þann 1. júní og hafði þá sem fyrr segir fjölgað um 17 einstaklinga eða um 0,2% á tímabilinu. Í Sveitarfélaginu Skagafirði búa nú 3.999 íbúar og hafði, sem fyrr segir, fjölgað um níu eða 0,2%. Í Húnaþingi vestra fækkar um sex manns eða 0,5% og þar búa nú 1.175 íbúar.

Í Blönduósbæ býr 931 íbúi, hefur fækkað um fjóra sem er 0,4% fækkun og á Skagaströnd fjölgaði um 0,7% eða þrjá einstaklinga en íbúar þar eru nú 462. Í Húnavatnshreppi fjölgar um átta eða 2,1% og eru íbúar þar nú 382 og íbúar Skagabyggðar eru nú 95. Í Akrahreppi eru 200 íbúar og hefur sú tala ekki breyst á tímabilinu.

Upplýsingar um íbúafjölda má nálgast á vef Þjóðskrár. Eru þær uppfærðar mánaðarlega og byggjast á skráðri búsetu einstaklinga í þjóðskrá þann 1. hvers mánaðar. 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir