Kærar kveðjur ,,heim“ - Áskorandinn Guðmundur St. Ragnarsson- Brottfluttur Norðvestlendingur

Ég hef ákveðið að troða mér inn í áskorendapennann sem brottfluttur Blönduósingur og Húnvetningur sem á einnig rætur til Hofsós. Með þessu bréfakorni langar mig að senda nokkurs konar sendibréf til heimahaga minna á Norðvesturhorni landsins. Það eru vissulega áskoranir sem mæta minni gömlu heimabyggð á Blönduósi og einnig byggðinni þar sem ég dvaldi oft sumarlangt sem barn, Hófsósi.

Atvinnulífið á Blönduósi hefur verið í vörn um áraraðir og fólki fækkað jafnvel þótt gamli Engihlíðahreppur hafi sameinast Blönduósbæ fyrir nokkru síðan. í fyrsta skipti í langan tíma eru nú afar jákvæðar fréttir að ,,heiman“. Mikil uppbygging hefur átt sér stað m.a. með tilkomu yfirstandandi bygginga á gagnaverum og þá eru hafnar nýbyggingar á íbúðarhúsnæði og fleiri væntanlegar í fyrsta sinn í áratugi a.m.k. að einhverju marki. Þá eru fyrirtæki í sókn á svæðinu t.d. Vilko og ferðaþjónustan er á uppleið. Heimamenn eru fullir bjartsýni og sjálfstrausts og er það vel.

Það gleður hjarta brottflutts heimamanns að heyra góðar fréttir af svæðinu. Hamra ber járnið þá heitt er. Það er jákvætt að gagnaver komi á svæðið en gagnaver eru hverful gæði og alls óvíst um líftíma þeirra. Gagnaver er góð byrjun en það þarf mun meiri fjölbreytni í atvinnulífið á Blönduósi og nágrenni og helst þarf að fjölga störfum háskólamenntaðra, og stuðla að nýsköpun m.a. í ferðaþjónustu. Þá hefur frumvinnsla verið héraðinu mikilvæg um áraraðir ekki síst á Skagaströnd og hana þarf að efla á svæðinu. Héraðið Austur-Húnavatnssýsla er því miður og eftir sem áður í nokkurri vörn.

Það er von mín og trú að forsvarsmönnum sveitarfélaga á svæðinu beri gæfa til að sameinast í eitt sveitarfélag sem verði sterk eining til hagsbóta fyrir héraðið allt og íbúa þess. Héraðið hefur gríðarlega möguleika til sóknar en forsenda þess er að mínu mati meiri samheldni og samvinna allra í staðinn fyrir fjórar litlar og veikbyggðari einingar. Sameinað hérað hefur vissulega sterkari rödd út á við sem er forsenda sóknar og styrkingu innviða héraðsins. Sameining þarf að stuðla að því að Skagaströnd snúi einnig vörn í sókn sem og sveitir héraðsins. Allir verða þá glaðir og öll dýrin í skóginum (Austur-Húnavatnssýslu) vinir.

Ég vona að sveitarfélagið Skagafjörður sjái tækifæri í því að efla byggðina á Hofsósi. Það eru einungis þrír byggðakjarnar í Skagafirði og það er að mínu mati samfélagsleg ábyrgð forsvarsmanna sveitarfélasins að gera sitt besta til að sjá til þess að á einu þeirra, Hofsósi, þar fólki hefur fækkað í áranna rás, sé blómlegt mannlíf með heilbrigðu atvinnulífi. Þar hefur einstaklingsframtak gert kraftaverk fyrir svæðið m.a. í ferðaþjónustu en betur má ef duga skal. Ég á bágt með að trúa öðru en hægt sé að gera betur í því að efla atvinnulíf á Hofsósi sem til langs tíma gerir ekkert annað en efla héraðið í heild sinni. Það eru ekki eingöngu fyrirtæki sem hafa samfélagslega ábyrgð.

Kærar kveðjur ,,heim“. Guðmundur St. Ragnarsson.

Áður birst í 46. tbl. Feykis 2018

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir