Kaffi í tilefni 90 ára afmælis Sjálfstæðisflokksins á morgun

Sjálfstæðisflokkurinn fagnar 90 ára afmæli sínu á morgun laugardag, en flokkurinn var stofnaður þann 25. maí 1929 með samruna Íhaldsflokksins og Frjálslynda flokksins. Til að fagna þessum tímamótum stendur flokkurinn fyrir viðburðum víðsvegar um land. Á Norðurlandi vestra verður boðið í kaffi á Sauðárkróki og á Hvammstanga.

Á Sauðárkróki mun fulltrúaráð Sjálfstæðisfélaganna í Skagafirði bjóða í morgunkaffi í Jarlsstofu Hótels Tindastóls frá kl. 11 til 13 en á Hvammstanga verður fulltrúaráðið í Húnaþingi vestra með opið hús í safnaðarheimilinu á Hvammstanga frá kl. 13 til 17.

Í tilefni af þessum tímamótum skipaði miðstjórn Sjálfstæðisflokksins afmælisnefnd sem nú hefur mótað hátíðardagskrá fyrir næstu mánuði til að halda upp á tímamótin. Auk afmælisfagnaðar á morgun ætlar Sjálfstæðisflokkurinn að efna til göngu um land allt hinn 18. ágúst næstkomandi. Þær verða skipulagðar af heimamönnum á hverjum stað fyrir sig.

Þann 7. september nk. er fyrirhugað að sjálfstæðismenn af landinu öllu fagni 90 ára afmæli flokksins saman með málþingi, formannafundi, flokksráðsfundi og kvöldskemmtun sem nánar verður auglýst síðar.

Þessu til viðbótar má búast við hliðarviðburðum á borð við golfmót og hátíðarkvöldverðum sem einstök félög og ráð kunna að standa fyrir.

Eru sjálfstæðismenn hvattir til að taka ofangreindar dagsetningar frá og fjölmenna til að fagna þessum stóra áfanga í sögu flokksins.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir