Líf í lundi - útivistar- og fjölskyldudagur í skógum landsins

Á morgun, laugardaginn 22. júní, verður haldinn útivistar- og fjölskyldudagur í skógum landsins undir merkinu Líf í lundi. Að deginum standa Skógræktarfélag Íslands, Skógræktin og Landssamtök skógareigenda í samvinnu við önnur félagasamtök og stofnanir. Arion banki styrkir verkefnið. Í fréttatilkynningu segir að markmið dagsins sé að fá almenning til að heimsækja skóga og stunda hreyfingu, njóta samveru og upplifa náttúru landsins.

Í tilefni dagsins verður boðið upp á fjölbreytta viðburði í 17 skógum um land allt og má nálgast upplýsingar um þá á Facebooksíðunni Líf í lundi. Í Gunnfríðarstaðaskógi í Húnavatnshreppi hefst dagskrá klukkan 14:00. Þangað er íbúum Austur-Húnavatnssýslu og öðrum landsmönnum boðið að koma til að eiga saman stund í framandi og notalegu umhverfi og taka þátt í dagskrá með skógræktarfélaginu. Boðið verður upp á ketilkaffi, pylsur og súpu, skógargöngu með leiðsögn og kennt að höggva í eldinn. Ýmislegt fleira er á dagskránni sem nálgast má á https://www.skogargatt.is/gaman-a-gunnfridarstodum.

Þetta er í annað sinn sem Líf í lundi er haldið á Gunnfríðarstöðum undir heitinu „Gaman á Gunnfríðarstöðum. Í fyrra mættu hátt í 100 manns í „blíðu“ rigningarveðri. Í Gunnfríðarstaðaskógi var haldin Jónsmessuhátíð árlega þegar íbúar gamla Torfalækjarhrepps komu saman til sjálfboðavinnu og höfðu síðan með sér veitingar í boði hreppsnefndar sem kvenfélagskonu sáu um í skóginum. Einnig var í nokkur skipti boðið upp á Jónsmessugöngu á vegum félagsins.

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir