Magnus - Dynur og Saga

Mynd af Facebooksíðunni Magnus - Dynur og Saga. - Áning. Séð af Vatnsnesi austur Húnaþing. Ásmundarnúpur og Jörundarfell í fjarska.
Mynd af Facebooksíðunni Magnus - Dynur og Saga. - Áning. Séð af Vatnsnesi austur Húnaþing. Ásmundarnúpur og Jörundarfell í fjarska.

Facebooksíðan Magnus – Dynur og Saga var opnuð í gær en á síðunni hyggst Magnús Ólafsson frá Sveinsstöðum kynna ferðir sínar um Húnaþing en hann reið sl. sumar 15 daga um Húnaþing og sagði ferðafélögum sögu Agnesar, Friðriks, Skáld Rósu, Blöndals sýslumanns og allra annarra sem komu við sögu í atburðum þeim sem gerðust í Húnaþingi á þriðja áratug 19 aldar þegar og áður en síðasta aftakan á Íslandi fór fram við Þrístapa í Vatnsdal.

Á síðunni segir Magnús að nafnið eigi að vera táknrænt og vísa til þess sem hann mun kynna á síðunni, Magnus er nafn hans sjálfs, Dynur geti verið tákn fyrir óm af sögunni, hófadyn eða bara nafnið á einum af reiðhestum hans, frábærum ferðahesti og góðum vin. Saga er svo vísun í að í ferðum sínum segir Magnús ýmiss konar sögur, „en“, segir Magnús, „ einnig átti ég eitt sinn hryssu, sem hét Saga. Hún var raunar systir hrossa mér fædd öll undan sömu hryssu og hétu: Friðrik, Agnes, Natan, Blöndal og Saga.“

Magnús segir í kynningu  að auk sögunnar um morðin og aftökuna sé hann áhugasamur um að kynna fyrir fólki ýmis náttúruumbrot sem hafa orðið í Húnaþingi og nefnir hann sem dæmi Vatnsdalshólana, skriður þær sem fallið hafa úr Vatnsdalsfjalli og það að fyrsta skráða deilan um veiðirétt var skráð í Vatnsdælasögu og lauk með morði Ingimundar gamla. Einnig má nefna að í Forsæludal glímdu þeir Grettir og Glámur.

Magnús ætlar að bjóða upp á fleiri ferðir í framtíðinni þar sem fléttað er saman reiðmennsku og upplifun af sögu lands og þjóðar. Áhugasömum er bent á nánari upplýsingar á  Facebooksíðunni Magnús – Dynur og Saga

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir