Húnavaka 2019 - Mikil hátíð framundan á Blönduósi

Nú fer að líða að hinni árlegu bæjarhátíð Blönduóss, Húnavöku, en hún fer fram dagana 18. – 21. júní nk. Fjölbreytt dagskrá verður á boðstólum og óhætt að segja að allir ættu að geta fundið eitthvað við sitt hæfi. Dagskrá hefst á fimmtudeginum með sýningu í Heimilisiðnaðarsafninu, fjallahólaferð og Blönduhlaupi USAH og lýkur á sunnudegi eftir mikla skemmtihelgi.

Í inngangsorðum Valdimars O. Hermannssonar, bæjarstjóra Blönduóss, í dagskrárblaði Húnavöku, segir hann að á bæjarhátíð líkt og Húnavöku, komi saman brottfluttir íbúar og gestir, Blönduósingar og aðrir Húnvetningar, og hittast til þess að rifja upp gömul kynni, og atburði sem liðnir eru. „Einnig er þetta vettvangur fyrir ferðamenn og aðra áhugasama gesti til þess að koma og dvelja yfir helgina eða a.m.k. líta við yfir daginn og njóta fjölbreyttrar dagskrár hátíðarinnar. Að vanda taka bæjarbúar og fyrirtækin í bænum vel ámóti gestum hátíðarinnar, snyrta vel og hreinsa til við húsin sín, og sumir verða með góð tilboð og kynningar yfir alla Húnavökuna.“

Jón Þór Eyþórsson, viðburðarstjóri Húnavöku, segir það oftast þannig þegar nýr aðili tekur við svona verkefni að einhverjar breytingar verði á dagskrárliðum. „En þetta eru ekki stórar breytingar þannig séð, þetta er enn bæjarhátíð með fjölbreytta og skemmtilega dagskrá fyrir alla fjölskylduna. Ég ákvað að hvíla nokkur atriði þetta árið en á móti koma önnur inn sem mér fannst passa betur í ár eins og danskennslu þar sem nýjustu tískudansarnir verða kenndir, fjallahjólakennslu og fjallahjólaferð, jóga í Hrútey og svo verður boðið upp á tónlistarveislu bæði föstudag og laugardag, en síðustu árin hefur aðeins verið tónlistardagskrá á laugardeginum.“

Jón Þór segir að þakka megi 16 frábærum fyrirtækjum á svæðinu sem tóku sig saman og borguðu tónlistarveisluna sem fram fer á föstudagkvöldinu. „Þar kemur t.d fram Friðrik Dór, Hildur og Magni. Svo á laugardagskvöldinu koma fram Gunni Helga, Einar Ágúst og Gunni Óla úr Skítamóral, Daði Freyr og Helgi Björns. Svo verða Á móti sól í Félagsheimilinu á föstudagskvöld og Skítamórall á laugardagskvöld. Þannig að það mætti segja að stærsta breytingin sé sú að á Húnavöku 2019 verður boðið upp á flottustu listamenn landsins.“

Hvernig hafa bæjarbúar tekið fyrirhuguðum breytingum?
„Nú er ég ekki búsettur á svæðinu svo ég get ekki hlerað samtölin í heita pottinum eða í búðinni en hef þó heyrt að fólk taki þessum breytingum vel og það sé mikil tilhlökkun hjá öllum aldurshópum.“

Óhætt er að segja að framundan sé mikil hátíð enda sér viðburðastjórinn fyrir sér fjölbreytta og skemmtilega dagskrá þar sem allir í fjölskyldunni finna eitthvað við sitt hæfi. „Alveg sama hvort viðkomandi sé fjögurra ára eða 84 ára. Þau yngstu geta leikið sér á flottasta leiksvæði landsins við skólann, séð Litlu hafmeyjuna með Leikhópnum Lottu, reynt við risapúsl eða kíkt á uppstoppaðan ísbjörn, á meðan þau eldri skella sér á kótelettukvöld, í sögugöngu um gamla bæinn, á sýningu um lopapeysuna, eða á minjastofu Kvennaskólans. Svo fyrir alla þar á milli er fjöldinn allur af skemmtilegum viðburðum.“

Allir ættu að finna eitthvað við sitt hæfi svo það er kjörið fyrir stórfjölskylduna að koma saman á Húnavöku 2019. Aðspurður um hvort stefnt sé að því að gera Húnavöku að stórri bæjarhátíð á landsvísu, segir Jón Þór svo ekki vera en vonar að það gerist sjálfkrafa með flottum atriðum og listamönnum.

„ Það eru allt of fáir sem gefa sér tíma til að stoppa á Blönduósi þegar fólk á leið þar framhjá en vonandi með svona flottri hátíð gefur fólk sér tíma til að kynna sér allt það sem þessi yndislegi bær hefur upp á að bjóða, og stoppað þá í hvert skipti eftir það.“

Jón Þór er spenntur fyrir hátíðinni og hvetur alla til að kynna sér dagskrána á Facebook síðu Húnavöku og fullyrðir að dagskráin muni koma skemmtilega á óvart og allir geta fundið eitthvað við sitt hæfi. „Kynnið ykkur dagskrána vel. Bækling Húnavöku verður hægt að finna á öllum helstu stöðum á Blönduósi en fylgist endilega vel með á Facebook síðu Húnavöku, facebook.com/hunavaka en þar má einnig finna allar upplýsingar á meðan á hátíðinni stendur,“ segir Jón Þór að lokum.

Dagskrá Húnavöku 2019

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir