Námskeið í skipulagningu og utanumhaldi viðburða

Samtök sveitarfélaga á Norðurlandi vestra standa fyrir námskeiði í skipulagningu og utanumhaldi viðburða þann 25. febrúar nk. Námskeiðið er ætlað öllum þeim, sem eru að skipuleggja og halda utan um stóra og smáa viðburði og langar til þess að sækja sér viðbót í verkfærakistuna sína. 

Í námskeiðslýsingu segir að farið verði yfir ýmsa hluti, svo sem markmiðasetningu, markhópa, dagskrárgerð og kynningarmál og ætti námskeiðið að nýtast öllum, reyndum sem óreyndum á þessu sviði.

Aðalleiðbeinandi er Eygló Rúnarsdóttir aðjúnkt við HÍ, sem kennir viðburðastjórnun á þeim bæ, en auk hennar munu a.m.k. tveir aðilar líta við með reynslusögur úr þessum geira. 

Námskeiðið er þátttakendum að kostnaðarlausu, en það er hluti af áhersluverkefni Sóknaráætlunar Norðurlands vestra 2018/19 á sviði ferðaþjónustu. 

Það verður haldið mánudaginn 25. febrúar í Textílmiðstöð Íslands- þekkingarsetri á Blönduósi (kennslustofa í kjallara) og stendur frá  kl. 9 – 16. 

Fjöldi þátttakenda er takmarkaður og gildir „fyrstur kemur, fyrstur fær“.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir