Ný slökkvistöð Brunavarna Austur-Húnvetninga afhent

Mynd með færslu Brunavarna Austur Húnavatnssýslu á Facebooksíðu sinni um afhendingu nýrrar slökkvistöðvar á Blönduósi.
Mynd með færslu Brunavarna Austur Húnavatnssýslu á Facebooksíðu sinni um afhendingu nýrrar slökkvistöðvar á Blönduósi.

Formleg afhending nýrrar slökkvistöðvar á Blönduósi fór fram sl. föstudag en Brunavarnir Austur-Húnvetninga (BAH), sem er byggðarsamlag Blönduósbæjar og Húnavatnshrepps um brunavarnir í sveitarfélögunum, festi kaup á húsnæðinu sem stendur stakt að Efstubraut 2 á Blönduósi, þar sem áður var lager fyrirtækisins Léttitækni. Á Facebooksíðu BAH kemur fram að húsnæðið hafi verið byggt árið 2007 og er 486 fm.

Eftirfarandi texta má finna í færslu Ingvars Sigurðssonar, slökkviliðsstjóra Brunavarna Austur-Húnvetninga:
„Unnið er að því að klára hugmyndir að skipulagi húsnæðisins sem verður síðan sett í lokahönnun svo hægt verði að hefja framkvæmdir við breytingar á húsnæðinu í takt við þarfir slökkviliðsins. Bæta þarf við iðnaðarhurðum og útbúa ýmis aðstöðurými. Lofthæð er mikil og því góðir möguleikar að gera milliloft fyrir aðstöðu.

Bætt aðstaða slökkviliða, bæði til viðbragða, þjálfunar og fræðslu er fyrsta skrefið í þá átt að stór bæta brunavarnir. Slökkviliðið hefur búið við þröngan kost á núverandi slökkvistöð liðsins að Norðurlandsvegi 2 en það húsnæði var byggt 1975 og einungis 223 fm. Má því segja að langþráð og þörf uppbygging aðstöðu liðsins sé í augnsýn. Slökkviliðið hefur ekki haft nægt rými eða aðstöðu sem skyldi til að sinna þjálfun og þeim fjölbreyttu verkefnum sem liðið þarf að sinna. Leigja hefur þurft auka húsnæði síðastliðin ár fyrir tankbíl liðsins vegna plássleysis en það er mjög slæmt gagnvart viðbragðstíma liðsins í útköllum.

Í nýju húsnæði verður því hægt að hafa allar bifreiðar og búnað liðsins undir sama þaki, ásamt því að útbúa kennsluaðstöðu, búningsklefa, sauna afeitrunarklefi, þvottaaðstöðu, skrifstofur, stjórnstöð og ýmis aðstöðurými. Með auknu rými verður möguleiki á að reyna að halda aðskilnaði milli hreinna og óhreinna rýma, sérstaklega ljósi baráttu gegn aukinni tíðni krabbameins hjá slökkviliðsmönnum.

Í tilefni að afhendingunni kom hluti slökkviliðsmanna BAH saman og skoðaði húsnæðið með tveggja metra regluna í heiðri. Í ljósi aðstæðna er ekki hægt að boða til viðburðar svo íbúar geti skoðað húsnæðið að svo stöddu en tækifæri gefst vonandi þegar framlíða stundir og breytingum húsnæðinu jafnvel lokið.

Undirritaður vill óska íbúum Blönduósbæjar og Húnavatnshrepps til hamingju með húsnæðið og á sama tíma þakka sveitarstjórnum sveitarfélaganna fyrir að standa dyggilega að baki mikilvægri uppbyggingu í brunavörnum en hún á tvímælalaust eftir að hjálpa til við að auka öryggi svæðisins enn meira á komandi árum.“

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir