Ratsjáin á Norðurlandi vestra farin af stað

Mynd: ssnv.is
Mynd: ssnv.is

Ratsjáin, nýsköpunar- og þróunarverkefni Íslenska ferðaklasans og Nýsköpunarmiðstöðvar Íslands, var sett af stað með formlegum hætti á Blönduósi þann 12. febrúar sl. Að þessu sinni taka fulltrúar frá sex fyrirtækjum sem starfa í ferðaþjónustu á Norðurlandi vestra þátt í verkefninu.

Þetta er í fjórða skiptið sem verkefnið er keyrt en Ratsjáin var sett af stað í september 2016 með þátttöku átta ólíkra fyrirtækja sem starfa vítt og breytt um landið. Fyrirkomulag verkefnisins er þannig að hvert og eitt fyrirtæki er tekið fyrir í einu með þeim hætti að þau bjóða öðrum þátttakendum í verkefninu heim og er rekstur þess fyrirtækis tekinn fyrir og brotinn til mergjar. Þátttakendur í verkefninu hafa mikla samanlagða reynslu af  þjónustu við ferðamenn og ættu því stjórnendur að geta lært mikið hver af öðrum. Einnig eru reyndir fagmenn fengnir til leiðbeiningar í hvert sinn. 

Fyrsti heimafundur, þar sem hin raunverulega vinna hefst, verður haldinn strax í næstu viku en síðasti fundurinn í hringnum verður þann 9.maí þegar síðasta fyrirtækið býður heim.

Fyrirtækin sex sem taka þátt í Ratsjánni eru:

Selasigling ehf. á Hvammstanga, Ferðaþjónustan á Lýtingsstöðum Skagafirði, Spíra ehf. á Sauðárkróki, Veitingastaðurinn B&S Restaurant á Blönduósi, Ferðaskrifstofan Seal Travel á Hvammstanga og Skíðasvæðið Tindastóli. 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir