Rekstur Blönduósbæjar jákvæður á síðasta ári
Á fundi sveitarstjórnar Blönduóss þann 9. júní síðastliðinn voru ársreikningar sveitarfélagsins teknir til síðari umræðu og samþykktir. Sveitarfélagið var rekið með 23,3 milljón króna hagnaði á árinu 2019.
Rekstrartekjur ársins námu 1.233,6 milljónum króna og hækkuðu um 15% milli ára. Rekstrargjöld námu 1.103,6 milljónum sem er 14,3% hækkun milli ára. Rekstrarniðurstaða ársins fyrir afskriftir, fjármunatekjur og fjármagnsgjöld nam 128,9 milljónum króna. Eigið fé í árslok 2019 nam 836,1 milljón og eiginfjárhlutfallið nemur 36,6%. Nánar má kynna sér niðurstöður ársreikninga í fundargerð sveitarstjórnar.
Í bókun sveitarstjórnar frá fundinum segir: „Af ofangreindu má sjá að rekstur Blönduósbæjar er mjög góður og hefur batnað á flestum sviðum, bæði með tilliti til afkomu og miðað við fjárhagsáætlun ársins 2019, ásamt viðaukum, meðal annars til þess að mæta mikilli uppbyggingu og fjölgun íbúa. Miklu máli skiptir að vinna vel með þann árangur til framtíðar."