Saga þýskra kvenna á Íslandi

Anne Siegel. Ljósmynd: Jacobia Dahm
Anne Siegel. Ljósmynd: Jacobia Dahm

Sendiráð Þýskalands á Íslandi, Goethe stofnun í Kaupmannahöfn og Reykjavík bókmenntaborg UNESCO standa fyrir viðburðaröð í júní með þýska rithöfundinum og blaðamanninum Anne Siegel í tilefni 70 ára afmælis komu þýskra landbúnaðarverkamanna til Íslands. Meðal þeirra staða sem heimsóttir verða eru Héraðsbókasafn A-Hún á Blönduósi og Félagsheimilið Ásbyrgi, Laugabakka.

„Þann 8. júní 1949 lagði strandferðaskipið Esja að höfn í Reykjavík með fjöldann allan af Þjóðverjum innanborðs. Þetta voru 130 konur og 50 karlmenn sem komu hingað á vegum Búnaðarfélagsins til að starfa sem landbúnaðarverkamenn. Alls komu 314 þýskir verkamenn til landsins 1949 og var þetta stærsti hópur útlendinga sem komið hafði til Íslands fram að þeim tíma, fyrir utan hernámslið Breta og Bandaríkjamanna. Margir settust hér að fyrir fullt og allt og fyrir tíu árum voru afkomendur Þjóðverjanna taldir a.m.k. 2000 manns,“ segir á heimasíðu Reykjavík bókmenntaborg 

Þýski rithöfundurinn, blaðamaðurinn og sagnakonan Anne Siegel hefur gert sögu þýskra kvenna á Íslandi skil í bók sinni Frauen Fische Fjorde og er gestarithöfundur Bókmenntaborgarinnar Reykjavíkur og Goethe stofnunar í Gröndalshúsi nú í vor og skipuleggur Bókmenntaborgin viðburði með henni víða um land í júní í samvinnu við Sendiráð Þýskalands á Íslandi.

Fyrsti viðburðurinn verður á Bókakaffinu Sæmundi á Selfossi mánudaginn 30. maí kl 16:30 og ferðinni lýkur svo með viðburði á Borgarbókasafninu í Grófarhúsi laugardaginn 8. júní kl. 15, sléttum 70 árum eftir að Esjan lagði að bryggju skammt þar frá.  Á þessum viðburðum segir Anne frá tilurð bókarinnar og sögunum sem hún heyrði við gerð hennar.

Spjallið verður á ensku en einnig verður lesinn stuttur kafli úr bókinni Frauen Fische Fjorde í íslenskri þýðingu Magnúsar Diðriks Baldurssonar.

VIÐBURÐIR MEÐ ANNE SIEGEL: 
Dagskráin með Anne Siegel er hvarvetna öllum opin og ekkert kostar inn. Hér fyrir neðan má sjá hvar og hvenær Anne kemur fram.
Fimmtudagur 30. maí kl. 16:30 Bókakaffið Sæmundur á Selfossi.
Föstudagur 31. maí kl. 16:30 Bókasafnið Ísafirði í Safnahúsinu.
Sunnudagur 2. júní kl. 15 Héraðsbókasafn A-Hún á Blönduósi.
Þriðjudagur 4. júní kl. 17 Orðakaffi, Amtsbókasafninu á Akureyri.
Fimmtudagur 6. júní kl. 20:30 Gistiheimilið Tungulending, Húsavík.
Föstudagur 7. júní kl. 17 Félagsheimilið Ásbyrgi, Laugabakka.
Laugardagur 8. júní kl. 15 Borgarbókasafn Reykjavíkur, Grófinni.

Sjá nánar HÉR

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir