Slæmt ástand vega á Norðurlandi vestra

Mynd sem birtist með færslu Guðmundar Hauks Jakobssonar á veginum um Refasveit í Austur Húnavatnssýslu í síðustu viku. Glöggt sést að vegurinn er mjög illa farinn og getur reynst vegfarendum hættulegur.
Mynd sem birtist með færslu Guðmundar Hauks Jakobssonar á veginum um Refasveit í Austur Húnavatnssýslu í síðustu viku. Glöggt sést að vegurinn er mjög illa farinn og getur reynst vegfarendum hættulegur.

Guðmundur Haukur Jakobsson, formaður byggðaráðs Blönduósbæjar, vekur athygli á slæmu ástandi þjóðvegar frá Blönduósi að Þverárfjallsvegi á Facebook síðu sinni í síðustu viku. Þar segist hann hafa tekið smá rúnt að Þverárfjallsvegi og telur hann veginn nánast stórhættulegan. „Skagastrandarvegur er að verða í vægast sagt slæmu ástandi, eiginlega stórhættulegur þar sem gert er ráð fyrir að hann megi aka á 90 km hraða. Þar sem á að skila hönnun á nýjum vegi með breyttri legu og nýju brúarstæði á Skagastrandarvegi núna 15. maí þá þykir mér einboðið að sá vegur verði boðinn út hið snarasta,“ skrifar Guðmundur.

Margir taka undir með Guðmundi þ.á.m. Dagný Rósa Úlfarsdóttir, oddviti Skagabyggðar, sem segist hafa talið ríflega 30 misstórar, opnar holur frá gatnamótunum við þjóðveg 1 og að afleggjara hjá sér að Ytra-Hóli. „… og þá voru ótalin sprungusvæðin sem voru ekki orðin opin, vægast sagt hræðilegt ástand á veginum.“
Valdimar O. Hermannsson, sveitarstjóri Blönduóssbæjar, leggur einnig orð í belg: „Búinn að senda þetta á Vegagerðina, með kröfu um úrbætur,“ skrifar hann.

Á vef Vegagerðarinnar má sjá að hvergi er eins mikið um þungatakmarkanir á vegum landsins og á Norðurlandi vestra sem gefur glöggt til kynna hve slæmt ástand vega þess svæðis í raun er. Flutningabílstjórar hafa kvartað yfir ástandinu enda mikið um flutninga á vegum landsins þessa dagana og kvartar Bessi Freyr Vésteinsson í Hofsstaðaseli í Skagafirði yfir ástandinu á sinni Fésbók:

„Á vef Vegagerðarinnar má sjá að í Skagafirði eru einu vegirnir á Íslandi sem eru með þungatakmarkanir vegna aurbleytu. að undanskildum nokkrum fáförnum malarvegum á Vestfjörðum. Þetta segir okkur vel um hversu lélegir vegirnir eru hér í héraðinu. Þetta ástand er ekki boðlegt, t.d. núna erum við að keyra áburði út til bænda, sem þyðir töluvert fleiri ferðir og aukinn kostnað. Nýlega voru sektir hækkaðar fyrir að fara yfir leyfilegan þunga, 100.000, kr. fyrir hvert tonn umfram að að mig minnir. Nauðsynlegt er að gera átak í að auka burðarþol veganna hér í Skagafirði. Óska eftir að fulltrúar í sveitarfélaginu, þingmenn og ráðherra fari í málið,“ skrifar hann.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir