Spurning um forgangsröðun?

Jóhanna Ey Harðardóttir. Mynd aðsend.
Jóhanna Ey Harðardóttir. Mynd aðsend.

Þarf eitt að útiloka annað? Nei, það vil ég ekki meina, en að mínu mati eiga framkvæmdir við leik- og grunnskóla samt að vera ofar í forgangsröðinni en framkvæmdir við menningarhús á Sauðárkróki. Mikil þörf er á endurbótum og framkvæmdum við grunnskólabyggingar í Skagafirði svo þær standist þarfir og kröfur nútímans, auk þess sem fullyrða má að aðstöðu til kennslu list- og verkgreina er meira og minna ábótavant. Það eru oft á tíðum þessar námsgreinar sem lúta lægra haldi þegar kemur að skipulagi húsnæðis og skólastarfs, sem er miður því þetta eru þær námsgreinar sem gefa nemendum tækifæri á að efla nýsköpunargáfu sína sem mikil eftirspurn er eftir á vinnumarkaði í nútímasamfélagi.

Áherslur Byggðalistans eru skýrar, að styrkja grunnstoðir samfélagsins og þar spila leik- og grunnskólar stóran þátt. Með sterkar menntastofnanir í öllum skólahverfum sveitarfélagsins, sem sinna þörfum nemenda í takt við nútímann, getum við byggt upp öflugt samfélag um allan Skagafjörð.

Að skuldabinda sveitarfélagið eins og gert var 10. maí 2023 með samkomulagi við Menningar- og viðskiptaráðuneyti um byggingu menningarhúss á Sauðárkróki, með úreltu kostnaðarmati upp á 1.517 m. kr. þar sem ríkissjóður greiðir 60% og sveitarfélagið 40%, auk skuldbindingar um að sveitarfélagið taki á sig allan þann umframkostnað sem hljótast muni af framkvæmdinni, teljum við ekki ábyrga fjármálastjórnun kjörinna fulltrúa. Það er augljóst að á meðan verið er að efna skuldbindingar þessa samnings munu aðrar framkvæmdir þurfa að bíða, svo sem framkvæmdir við leik- og grunnskólabyggingu í Varmahlíð, endurbætur Grunnskólans austan Vatna, íþróttahús á Hofsósi og endurbætur við Árskóla. Fulltrúar Byggðalista hefðu frekar kosið að þessar framkvæmdir yrðu settar í forgang.

Jóhanna Ey Harðardóttir
Oddviti Byggðalistans

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir