Stærsta áskrorunin hefur verið að treysta örlögunum | Jón Gnarr

Laugardaginn 1. júní stingum við Íslendingar okkur inn í kjörklefa og setjum x við þann frambjóðanda sem við viljum sjá sem forseta þjóðarinnar næstu fjögur árin. Aldrei áður í sögu lýðveldisins hafa jafn margir einstaklingar skreytt kjörseðilinn eða hvorki fleiri né færri en tólf. Feykir lagði nokkrar spurningar fyrir forsetaefnin og gáfu þau sér öll tíma til að svara. Hér að neðan má lesa svörin sem Jón Gnarr gaf Feyki.

Hvers vegna á fólk að kjósa þig? - Vegna þess að ég hef mikla og fjölbreytta lífsreynslu, margslungið vald á íslenskri tungu og hæfni til að beita henni á skapandi og áhrifaríkan hátt og hafa jákvæð áhrif á fólk. Ég hef farið óhefðbundna leið í lífinu sem veitir mér innsýn inn í svo margar hliðar af íslensku samfélagi. Ég er t.d. eini frambjóðandinn í efstu sætum skoðanakannana sem er sjálfstætt starfandi. Ég hef bakgrunn úr menningu og listum og stjórnsýslu, en ekki bara úr stjórnsýslu.

Af hverju langar þig að verða forseti Íslands? - Vegna þess að ég held að það sé mikil þörf fyrir mig í þetta embætti á þeim tímum sem við erum að fara í gegnum nú.

Hvað hefur komið þér mest á óvart í baráttunni um Bessastaði? - Hvað þetta hefur verið pólitískara en ég gerði ráð fyrir og hvað umræðan hefur verið einsleit. Hélt t.d. að það yrði rætt meira um loftslagsmál og menningu en það hefur lítið sem ekkert verið minnst á þessi stóru mál.

Hver hefur verið stærsta áskorunin í þínu lífi? - Að treysta örlögunum.

Hvar og hvenær sástu maka þinn fyrst? - Ég sá hana fyrst á götumarkaði í Austurstræti þar sem hún var að selja skartgripi sem hún gerði sjálf.

Hvað ætlaðir þú að verða þegar þú yrðir stór? - Mig langaði að verða einhvers konar listamaður.

Bessastaðir eru ágæt búskaparjörð, til dæmis er þar ágæt fjörubeit fyrir sauðfé meira og minna allan veturinn. Hefur þú í hyggju að stunda búskap á Bessastöðum ef þú verður forseti? - Það þykir mér ekki ólíklegt og mér finnst ekki óeðlilegt að á Bessastöðum yrði rekinn málamynda búskapur.

- - - - -

Allir fengu frambjóðendurnir sömu spurningarnar. Tilviljun og rými réðu því í hvaða röð forsetaefnin fóru á síður pappírsútgáfu Feykis. Birtingartíminn hér á Feykir.is er öfug röð miðað við blaðið en viðtölin munu birtast frá miðvikudegi til föstudags. Feykir þakkar forsetaefnunum fyrir að gefa sér tíma til að svara.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir