Sumarsýning Heimilisiðnaðarsafnsins opnar á morgun

Sumarsýning Heimilisiðnaðarsafnsins verður opnuð á morgun uppstigningardag, fimmtudaginn 30. maí, klukkan 14:00. Sýningin nefnist Íslenska lopapeysan, uppruni – saga – hönnun og er samstarfsverkefni Heimilisiðnaðarsafnsins, Hönnunarsafns Íslands og Gljúfrasteins.

Við opnunina flytur Björg Baldursdóttir nokkrar stemmur en Björg er meðlimur í Kvæðamannafélaginu Gná. Boðið verður upp á  kaffi að hætti hússins. Allir eru velkomnir og er aðgangur ókeypis.

Sýningin Íslenska lopapeysan var fyrst opnuð í Hönnunarsafni Íslands í desember árið 2017 og byggir hún á rannsókn Ásdísar Jóelsdóttur, lektors við Háskóla Íslands en hún gaf einnig út samnefnda bók um íslensku lopapeysuna fyrir jólin 2017. Sýningin var sett upp í Kaupmannahöfn á síðasta ári og fór þaðan til Odense. 

Heimilisiðnaðarsafnið á Blönduósi stendur við Árbraut 29 og er opið milli klukkan 10- og 17 frá 1. júní til 31. ágúst.

 

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir