Þeyst um Þingeyjarsveitir : Á mjúkum moldargötum...

Svangir ferðalangar á á Landamóti. Greinarhöfundur lengst til vinstri, þá Mette í Þúfum, Valberg í Stóra Vatnshorni í Haukadal, Erlingur í Neðra-Ási í Hjaltadal, Ágúst á Ytra Skörðugili III, Simone frá Þýskalandi, Systa á Kálfsstöðum, Steinunn úr Garðabæ, Óli á Kálfsstöðum, Bryndís á Ytra Skörðugili III, Gísli í Þúfum og Brynja Gísladóttir. Með voru einnig hluta ferðarinnar Jóhanna Sigrún í Stóra Vatnshorni og Akureyringarnir Alma Ágústsdóttir og Helga Benediktsdóttir. MYNDIR: GUNNAR RÖGNVALDSSON OG SIGRÍÐUR BJÖRNSDÓTTIR
Svangir ferðalangar á á Landamóti. Greinarhöfundur lengst til vinstri, þá Mette í Þúfum, Valberg í Stóra Vatnshorni í Haukadal, Erlingur í Neðra-Ási í Hjaltadal, Ágúst á Ytra Skörðugili III, Simone frá Þýskalandi, Systa á Kálfsstöðum, Steinunn úr Garðabæ, Óli á Kálfsstöðum, Bryndís á Ytra Skörðugili III, Gísli í Þúfum og Brynja Gísladóttir. Með voru einnig hluta ferðarinnar Jóhanna Sigrún í Stóra Vatnshorni og Akureyringarnir Alma Ágústsdóttir og Helga Benediktsdóttir. MYNDIR: GUNNAR RÖGNVALDSSON OG SIGRÍÐUR BJÖRNSDÓTTIR

Það hefur löngum verið umtalað meðal hestamanna að fá landsvæði séu jafn greið yfirferðar ríðandi mönnum og Þingeyjarsýslur. Eru lýsingar á endalausum moldargötum og skógarstígum slíkar að þeir sem ekki hafa sannreynt, liggja andvaka með vonarneista í brjósti um að brátt muni þeir fá að máta sig við dýrðina.

Síðustu vikuna í júlí var okkar tími kominn þegar hross voru tekin af bílum á Landamóti í Kaldakinn þar sem við höfðum fengið inni í nokkrar nætur hjá Kristbjörgu Ingólfsdóttur og Sigurði Sveini Ingólfsyni sem hafa útbúið þar einstaklega góða aðstöðu fyrir menn og hesta til lengri eða skemmri dvalar, í rúmgóðu íbúðarhúsi og með góð hólf. Eins og ævinlega þarf að koma sér fyrir, hella upp á og heilsa ferðafélögunum eftir því sem þá drífur að, áður en sest í hnakkinn. Fyrirhuguð áætlun gerði ráð fyrir 5-6 daga reið með þægilegum dagleiðum. Spáin bauð upp á hausthraglanda síð-ustu dagana svo ákveðið var að geta brugðist við ef brysti á með hríð og njörfa ekki niður hvar endað yrði.

Þegar riðið var úr hlaði á Landamóti áleiðis í Torfunes voru í hópnum 14 knapar og 50 hross sem í hægum andvara voru léttstíg niður veginn að Fremstafelli en fljótlega var sveigt af honum og við tóku grónar götur niður með Skjálfandafljótinu að vestanverðu. Þrátt fyrir stutta dagleið var hún ótrúlega fjölbreytt. Eftir að hafa áð um stund á bökkum Djúpár lá leiðin upp í Kinnarfellið og við blasti Skjálfandafljótið sem rétt utan Fremstafells greinist í tvær kvíslar sem renna austan og vestan við Þingeyjuna, lyng og kjarri gróinn hraunhólma. Þarna voru götur góðar en nokkuð djúpar og ekki sérlega fljótfarnar en síðan tók að halla ofan í Fellsskóginn þar sem höfð voru hestaskipti. Riðið var léttan síðasta spölinn í nánast útlendum skógi á löngum kafla allt að brúnni yfir Skjálfandafljót neðan Torfuness, en þar á bakkanum var Baldvin bóndi tilbúinn með gott hólf. Er heim var komið hugsuðum við okkur gott til glóðarinnar og brunuðum í sund í Stóru Tjarnir en þar er opnunartími mjög takmark-aður svo ekkert varð úr.

Þriðjudagur

Eftir skúri næturinnar vöknuðum við í glampandi sól og hægum andvara sem lofaði góðu með ferðaveður. Það er okkur mikilvægt að eiga góðar samverustundir morgna og kvölds í ferðunum og þar sem engu þurfti að pakka og dagleiðin ekki mjög löng var liðið að hádegi þegar lagt var á. Segja má að versti farartálminn alla dagana hafi verið brúin yfir Skjálfandafljót, sem er komin til ára sinna, mjó og ugglaust hál í bleytu. Baldvin í Torfunesi, sem smalað hafði hrossunum í aðhald um morguninn, tók að sér að stöðva umferð öðrum megin, en Sigríður á Kálfsstöðum að austan og verja þar ristahlið. Settu þau upp þá valdsmannssvipi sem einkenna gamlan löglegluþjón og starf-andi yfirdýralækni svo aðvífandi bílstjórar nauðhemluðu á meðan við þokuðumst yfir brúna.

Komin yfir var kúvent og hvellbeygt til suðurs og nú riðið upp með Skjálfandafljótinu áleiðis að bænum Vaði þar sem hrossin hröktust aðeins úr sporaslóð á leið í gegnum hlaðið, undan blaktandi þvotti, ferðamönnum og trampó-línum. Fossselsskógur er vöxtulegur og í gegnum hann greiðfær vegur sem breytist í dunandi moldargötur er komið er upp á hálsinn. Þar sáum við yfir fyrri dagleið til vesturs og allt norður til Kinnarfjalla. Áð var við afréttargirðingu en bíllinn gat fylgt okkur þennan dag með nesti. Fljótsheiðin er ögn á fótinn, en göturnar dásamlegar, allt þar til við komum inn á gamla þjóðveginn sem liggur niður í Reykjadal-inn, en hólf áttum við víst á Einarsstöðum hjá Olgu bónda og gömlum Hólanema. Lá leiðin í hólfið eftir keppnisvelli Þjálfamanna svo þarna stigu flest hrossin sín fyrstu spor á sýningarbraut.

Auðvitað var svo farið í sund á Laugum og dvöldu mestu kapparnir í kalda karinu til jafns við heita pottinn.

Miðvikudagur

Miðvikudagurinn var hlýr en rekja í loftinu. Frá Einarsstöðum riðum við yfir að Stóru-Laugum en þaðan liggur sneiðingur upp á Laxárdalsheiðina. Nokkuð bætti í úrfellið á meðan við tosuðumst upp. Er við náðum hæð minnkaði það á hinn bóginn og stigu hrossin léttan allt niður að Þverá í Laxárdal þar sem við áðum. Þverá er þekkt bæjarnafn fyrir margra hluta sakir. Þar er gamall burstabær varveittur af Þjóðminjasafninu og kirkja sem byggð var 1878. Fyrsta kaupfélagið var stofnað á Þverá 1882, ekki síst fyrir tilstilli Benedikts Jónssonar sem fæddist þar þó lengst af væri hann kenndur við næsta bæ, Auðni, en hann var einnig faðir skáldkonunnar Huldu. Flosa Ólafssyni leikara varð þetta að yrkisefni á ferð hans um Þingeyjarsýslu:

Sjá hvað hér er yndislegt á allar lundir
sveinar elta hringa hrundir
og hér var það er SÍS kom undir.

Eftir hestaskipti undir garðvegg þar sem sími ofur hestaferðamannsins Bjarna Páls Vilhjálmssonar á Húsavík fannst, héldum við niður Laxárdalinn, fyrst þjóðveginn en síðar slógum við okkur austur að hlíðinni þar sem göturnar leiddu okkur út og upp fyrir ofan Laxárvirkjunina og niður í Presthvamm þar sem við áttum pantað hólf hjá Sæþóri Gunn-steinssyni bónda. Einn af kostunum við þessa leið utan undirlagsins eru áningarhólf sem komið hefur verið upp víðsvegar. Ekki þarf mikið til, nokkra staura og snúrur og allt verður auðveldara.

Eftir baðferð var brunað heim því von var á gestum í kvöldmat, en um langt árabil hafa Grétar Geirsson og Sigrún Lóa Jósefsdóttir í Hjarðarholti ferðast með okkur sem og Jóhann Þórhallsson og Sigrún Ólafsdóttir frá Brekkugerði í Fljótsdal. Þau áttu ekki heimangengt í ferðalagið en komu og áttu með okkur góða kvöldstund ásamt Baldvini í Torfu-nesi og gestgjöfum.

Fimmtudagur

Fimmtudagurinn rann upp bjartur og fagur og vorum við komin í Presthvamm um ellefu þar sem rekið var að, litið undir hrossin og búist til ferðar. Þar var kominn til móts við okkur, sem leiðsögumaður, Gunnar Óli Hákonarson bóndi á Sandi sem fyrir nokkrum árum átti heima um skeið í Stokkhólma. Fyrsti kippurinn var með veginum út að Ysta-Hvammi en þar liggur vegur upp á Hvammsheiðina og áðum við hjá afréttarhliðinu þar sem útsýnið yfir sveitina var stórkostlegt. Var nú riðið norðaustur heiðina á unaðslegum götum, en heiðin er mikið til þurrlendir lyngmóar. Er norðar dró lá gatan með bökkum Mýrarkvíslar en hún er sögusviðið í kvikmyndinni skemmtilegu Síðasta veiðiferðin. Áfram liðuðust göturnar norður á bóginn allt að þjóðveginum skammt vestan Laxamýrar þar sem við fórum yfir veginn og tókum stefnu í vestur.

Breytti nú um landslag. Þarna riðum við mjúka sanda og á milli uppgræðslusvæða í fyrstu en síðan tóku við deigjur og loks harðbalar á bökkum Miklavatns sem við þurftum nánast að ríða hringinn í kringum til að komast heim að Sandi og vorum þá komin vestur að Fljótinu einu sinni enn og nú með Kinnarfjöllin innar seilingar. Ég hygg að þessi dagleið hafi verið einhver sú stórkostlegasta sem hópurinn hefur lagt að baki á tuttugu ára brölti. Göturnar, útsýnið, veðr-ið, hestarnir og félagsskapurinn, allt lagðist á eitt undir styrkri leiðsögn nafna.

Föstudagur

Spáin fyrir föstudaginn hafði verið vond, nánast haustveður í kortunum svo hópurinn gallaði sig upp áður en langt var af stað frá Sandi morguninn eftir. Var þá gott að fara með áminn-ingarvísu Hjörleifs Hjartarsonar frá Tjörn.

Vandlega gæta menn verða þess
svo verði ekki á sú skyssa.
Komnir í vatns og vindhelt dress
en vera ekki búnir að pissa.

En veðrið var ekki slæmt og varð aldrei. Við kvöddum Gunnar á Sandi, riðum úr hlaði og beygðum fljótlega af afleggjaranum inn á vegslóða sem lá inn í hraunið. Oft sækja hrossin á í svona kulda á meðan hrollurinn fer úr þeim, en það var búið með það sama og þau lestuðu sig laglega í gegnum hraunið sem var jafn gott því víða glitti í sprungur í götunni og holhljóð var í klöppunum sem riðið var yfir. Var ekki laust við að feginleika gætti þegar við tóku skógargötur allt upp að þjóðveginum.

Hjá Árbót var aftur riðið upp á Hvammsheiðina mjúklendu og komum við síðar inn á götuna sem farin var deginum áður niður að Ysta-Hvammi. Eftir góða áningu í hinni undurfallegu Hraunsrétt, þar sem við biðum leiðsagnar Sæþórs í Presthvammi yfir Laxá, riðum við yfir á Þúfuvaði, til móts við Helluland og Múlabæina og var áin rétt í kvið. Ekki er gott fyrir ókunnuga að greina landtökustað þar sem áin er það breið og mætti leysa það auðveldlega með staurum á bökkunum beggja vegna. Sæþór vísaði okkur áfram veginn að Fagranesi og inn á svokallaða Vatnshlíð, en það er dýrðleg leið með hlíðinni austan Vestmannsvatns sem leiddi okkur aftur heimundir Einarsstaði þar sem við fengum hagagöngu að nýju.

Laugardagur

Þar sem spáin var öll að mildast var ákveðið að enda ferðina á laugardeginum á Landamóti og flytja hrossin þaðan heim eftir því sem umferðarþungi verslunarmannahelgarinnar gæfi tækifæri til. Greinarhöfundur stakk þó af og fylgdi ekki hópnum sem reið síðasta daginn eftir gamla veginum yfir Fljótsheiðina að Fosshóli og þaðan framhjá Hriflu og á upphafsreit.

Allt gekk að óskum og varla að skeifa færi undan. Veðrið fullkomið, hvorki bleyta til vandræða, ryk né mý sem stundum getur verið ergilegt, sérílagi fyrir hrossin. Gestrisni heimamanna og greiðasemi einstök þar sem allir vildu leið-beina okkur sem fæst höfum farið þetta áður. Ekkert er svo ofsagt um reiðleiðirnar sem eru einstaklega fallegar, fjölbreyttar og mjúkar, a.m.k. við þau skil-yrði sem við höfðum.

Hrossin voru kát og bötnuðu með hverjum degi eins og hestamenn þekkja þegar dagleiðir eru hæfilegar. Svo er það félagsskapurinn. Að vera í góðum vinahópi þar sem allir leggja sitt af mörkum, hvort heldur það er við undirbúning, matseld, rekstur eða trúss gerir ferðirnar svo afslappaðar og skemmtilegar. Í þessu tilviki var líka einstaklega gott að gera út frá einum stað og því gafst mikill tími til kyrrðar og samverustunda eins og einum er lagið að kalla slíkt samfélag.

Við áttum þarna eina viku reiðar,
ótal þræddum slaufur bæði og hringa.
Þar sem allar götur eru greiðar
og grundir mjúkar, Suður Þingeyinga.

- - - - - -

Texti: Gunnar Rögnvaldsson
Frásögnin birtist fyrst í 33. tölublaði Feykis 2022

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir