Þingflokkur Sjálfstæðisflokksins heimsótti Norðurland vestra í gær

Þrír góðir í Ljósheimum. Kristján Þór Júlíusson, sjávar­útvegs- og land­búnaðar­ráðherra, Bjarni Haraldsson, kaupmaður og Brynjar Pálsson fyrrum bóksali m.m. á Króknum. Myndir PF.
Þrír góðir í Ljósheimum. Kristján Þór Júlíusson, sjávar­útvegs- og land­búnaðar­ráðherra, Bjarni Haraldsson, kaupmaður og Brynjar Pálsson fyrrum bóksali m.m. á Króknum. Myndir PF.

Þingflokkur Sjálfstæðisflokksins er nú á ferð um landið undir yfirskriftinni Á réttri leið og sannarlega má segja flokkurinn hafi verið á réttri leið í gær þar sem fundaherferðin hófst á Norðurlandi vestra. Fyrsti fundurinn var haldinn á Laugarbakka í Húnaþingi en seinna um daginn var rennt í Skagafjörðinn og haldinn fundur í Ljósheimum. Þess á milli var komið við á bæjarskrifstofunum á Blönduósi og í Spákonuhofi á Skagaströnd og púlsinn tekinn á atvinnulífi staðanna og bæjarbragnum almennt.

Þetta er í fyrsta skipti sem þingflokkur Sjálfstæðisflokksins ferðast allur saman í kjördæmi landsins í kjördæmaviku Alþingis en áætlað er að heimsækja alls um 50 staði á landinu, ýmist með opna fundi eða vinnustaðaheimsóknir. Lagt er upp með að fundir þingflokksins séu óformlegri en áður og lögð áhersla á spjall við heimamenn um það sem skiptir máli.

„Við tökum fjögurra til fimm daga lotu núna og förum síðan í styttri og afmarkaðri ferðir út mars og fram í byrjun apríl. Í heildina verður þetta um 50 heimsóknir og fundir í þessari fundaherferð,“ sagði Birgir Ármannsson, þingflokksformaður flokksins í Ljósheimum í gær.

Ekki var um hefðbundin ræðuhöld að ræða heldur sátu þingmenn á dreif í salnum og spjölluðu við gesti. „Fyrir okkur vakir að gefa ykkur tækifæri til að segja okkur hvað ykkur býr í brjósti um málefni líðandi stundar bæði þau málefni sem snúa beint að ykkur og hin almennu mál sem við erum að fjalla um í þinginu,“ sagði Birgir og undir það tók Bjarni Benediktsson, fjármálaráðherra og formaður flokksins við upphaf fundarins og sagði að þingflokkurinn væri komin til að hlusta á viðstadda.

„Þetta fer mjög vel af stað. Þetta er fyrsti dagurinn okkar og við gerum það nýtt að þessu sinni að ferðast allur þingflokkurinn saman í kjördæmavikunni. Við höfum fengið góða mætingu og höfum brotið upp fundaformið með því að setjast að borðum í stað þess að vera með langa fyrirlestra. Þetta hefur gengið fram úr öllum væntingum okkar og verið virkilega skemmtilegt,“ sagði Bjarni að loknum fundi í Ljósheimum.

Hvaða mál hafa brunnið á fólki hér á Norðurlandi vestra?
„Það er eins og oft er, mál sem varða nærsamfélagið, orkuöryggi, atvinnuuppbyggingu, opinber störf og jafnvel mál eins og línulagnir og annað þessháttar,“ segir Bjarni og greinilegt að fjölmargt bar á góma. „Einnig mál sem varða landið allt og efnahagsmálin í víðu samhengi. Vaxtastigið og þröskuldinn fyrir ungt fólk til að kaupa sér sína fyrstu fasteign, einnig um þá námsmenn sem koma suður, hvernig þeir eiga að kljúfa kostnað við það, fjármálakerfið og framtíð þess, svo eitthvað sé nefnt.“

Eftir fundinn hélt þingflokkurinn leið sinni áfram til Ólafsfjarðar en fundað var í Eyjafirðinum í dag og munu enda daginn á Húsavík.

Dagskrá ferðarinnar má finna á heimasíðu Sjálfstæðisflokksins þar sem einnig verða birtar fréttir úr hringferðinni sem og á samfélagsmiðlum.

Meðfylgjandi myndir voru teknar í Ljósheimum í gær.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir