Umferðarslysum hefur fækkað verulega á Norðurlandi vestra

Mynd: Lögreglan á Norðurlandi vestra.
Mynd: Lögreglan á Norðurlandi vestra.

Á liðnu ári var lögð aukin áhersla á umferðaröryggismál hjá Lögreglunni á Norðurlandi vestra og var sérstök umferðardeild sett á fót innan embættisins sem hafði það að megin markmiði að ná niður umferðarhraða í umdæminu og fækka þar með umferðarslysum. Í ljósi árangursins sem náðist á árinu er stefnan sett á að auka eftirlitið enn frekar á árinu sem nú er að hefjast. Þetta kemur fram í Facebookfærslu á síðu Lögreglunnar á Norðurlandi vestra. 

Mynd: Lögreglan á Norðurlandi vestra.

Umferðarslysum fækkaði verulega í umdæminu á síðasta ári eða um tæp 26%, fóru úr 171 árið 2017 í 136 árið 2018. Á sama tíma fjölgaði kærðum umferðarlagabrotum úr 3.054 árið 2017 í 7.332 árið 2018. Af þeim voru brot vegna hraðaksturs 6.874 en voru 2.797 árið 2017, árið 2016 voru þau 1.243 og 811 árið 2015.

Mynd: Lögreglan á Norðurlandi vestra.

Er það  mat lögreglunnar að aukinn sýnileiki lögreglu á þjóðvegum í umdæminu samhliða öflugu hraðaeftirliti skili sér í auknu umferðaröryggi líkt og að var stefnt. Nú hefur verið ákveðið að eftirlit verði hert enn frekar á árinu 2019 og hefur lögreglumönnum í umferðardeild embættisins verið fjölgað. „Er það von okkar að hægt verði að ná enn betri árangri í fækkun umferðarslysa á því ári sem nú er að fara af stað,“ segir á Facebooksíðu Lögreglunnar á Norðurlandi vestra.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir