Útfararþjónusta á Norðurlandi vestra

Fyrirtækið hefur fjárfest í þessum fallega Lincol-líkbíl. Aðsend mynd.
Fyrirtækið hefur fjárfest í þessum fallega Lincol-líkbíl. Aðsend mynd.

Fyrir skömmu tók til starfa nýtt fyrirtæki á Norðurlandi vestra þegar hjónin Jón Ólafur Sigurjónsson og Hugrún Sif Hallgrímsdóttir á Skagaströnd settu á fót útfararstofu, þá fyrstu á svæðinu. Fyrirtækið hefur hlotið nafnið Hugsjón – útfararþjónusta og er ætlunin að þjónusta allt Norðurland vestra.  Feykir hafði samband við Jón og innti hann fyrst eftir því hvernig og hvers vegna hugmyndin að fyrirtækinu hafi kviknað.

„Ætli þessi hugmynd hafi ekki farið að læðast að okkur þegar ég fór að sjá um útfarir í Hólaneskirkju sem starfandi meðhjálpari. Við fórum að velta fyrir okkur að það væri hvergi heildstæð útfararþjónusta í boði í nágrenni við okkur. Við viðruðum þessa hugmynd við sr. Bryndísi, sóknarprestinn okkar á Skagaströnd, en hún hefur mikla reynslu af útfararstjórn. Hún hvatti okkur eindregið til að skoða þetta af alvöru og þar með fóru hjólin að snúast.

Í hverju er starfsemi útfararþjónustu fólgin?

„Starfsemi útfararþjónustunnar er margþætt. Það er í mörg horn að líta fyrir aðstandendur þess látna og oft erfitt að hafa yfirsýn á þessum erfiðu tímum sem sorgarferlið er. Okkar starfsemi felst í því að sjá um einstaka þætti útfarar eða sjá um allt ferlið, allt fer það eftir því hvað aðstandendur vilja. Stærsti kostur neytenda er því að geta leitað til eins og sama aðila með allar spurningar og vangaveltur og  fengið nánast alla þjónustuna á sama stað.“

Eins og áður kom fram er Jón meðhjálpari í Hólaneskirkju á Skagaströnd og þekkir því vel til þess starfs sem fram fer í kirkjunni. Það gerir Hugrún einnig en hún hefur lengi starfað hjá kirkjunni. „Ég myndi segja að starfsemin færi vel saman við önnur störf okkar innan kirkjunnar, Hugrún hefur verið organisti og kórstjóri til margra ára og hefur því starfað þónokkuð við útfarir, þá hef ég starfað sem meðhjálpari og hef því einnig reynslu á sviðum kirkjunnar. Við erum nokkuð vel tengd mörgu af því góða fólki sem starfar við kirkjurnar á svæðinu, prestum, organistum og öðru tónlistarfólki og í því felst, að okkar mati, mikill styrkur,“ segir Jón. 

Jón segir að þau ætli að bjóða þessa þjónustu öllum þeim sem vilja nýta sér hana en áherslan verði lögð á að þjóna Norðurlandi vestra. „Við höfum fengið mjög góð viðbrögð, við höfum ekki orðið vör við annað en fólki finnist þetta vera þörf þjónusta hérna á svæðinu og fagnar því að það geti leitað til okkar. Það vill auðvitað enginn vera í þeim sporum að þurfa á okkar þjónustu að halda en það er samt eitthvað sem flestir þurfa á einhverjum tímapunkti að takast á við,“ segir Jón.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir