Vilja virkja samfélagið betur í aðkomu að Húnavöku
Menningar-, íþrótta- og tómstundanefnd Blönduósbæjar kom saman til fundar sl. þriðjudag. Gestur fundarins var Kristín Ingibjörg Lárusdóttir sem séð hefur um framkvæmd Húnavöku undanfarin ár. Á fundinum tilkynnti Kristín formlega að hún hygðist ekki taka að sé umsjón með hátíðinni í ár og þakkaði nefndin henni kærlega fyrir vel unnin störf við Húnavöku en hún þykir hafa staðið sig með prýði.
Í fundargerð segir að nefndin sé áhugasöm um að efla hátíðina og standa vel að henni. Þörf sé á að breyta, bæta og virkja samfélagið betur í þátttöku við hana og voru ýmsar hugmyndir ræddar varðandi hátíðina og meiri þátttöku og aðkomu nefndarinnar að henni. Næsta skref verður að auglýsa eftir viðburðarstjórnanda til að sjá um hátíðina og koma vinnuferlinu af stað.